Þetta segir í yfirlýsingu sem birtist á heimasíðu Samherja fyrir stuttu. Þar segir að undanfarin ár hafi verið fjallað um ýmis málefni sem tengist starfsemi Samherja og að bæði stjórnendum og starfsfólki hafi sviðið þessi umfjöllun og umræða um fyrirtækið og störf þess.
„Enda þykir þeim umfjöllunin hafa verið einhliða, ósanngjörn og ekki alltaf byggð á staðreyndum,“ segir í yfirlýsingunni.
Í yfirlýsingunni segir að í aðstæðum þar sem vegið hafi verið að starfsheiðri með ósanngjörnum hætti á opinberum vettvangi geti reynst erfitt að bregðast ekki við. Umfjöllun um samskipti fólks „sem skipst hafi á skoðunum og ræddi hvernig best væri að bregðast við aðstæðum“ hafi verið erfitt að svara ekki.
„Þarna var um að ræða persónuleg samskipti á milli starfsfélaga og vina sem enginn gerði ráð fyrir að yrðu opinber. Það breytir því þó ekki að þau orð og sú umræða sem þar var viðhöfð voru óheppileg.“
Þarna er vísað í samskipti svokallaðrar „skæruliðadeildar“ Samherja þar sem meðal annars var rætt um prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi og kjör nýs formanns Blaðamannafélags Íslands.