Greint var frá því í dag að leiðtogi miðjuflokksins, Yair Lapid, væri kominn á lokametrana með að mynda nýja ríkisstjórn.
BBC greindi frá því í dag að samkomulag flokkanna um ríkisstjórnarsamstarf feli í sér að formaður þjóðernisflokksins, Naftali Bennett, verði forsætisráðherra á fyrri hluta kjörtímabilsins áður en Yesh Atid taki við embættinu á síðari hluta þess.

Flokkur Bennetts er með sex þingmenn og gefur stjórnarandstöðusamstarfsflokkum meirihluta í þinginu. Flokkarnir sem myndu sameinast í nýrri stjórn eru af bæði vinstri og hægri vængnum og af miðjunni.
Flokkar Bennetts og Lapids eiga fátt sameiginlegt annað en vilja til að koma Netanjahú frá völdum.
Enginn forsætisráðherra Ísraels hefur setið eins lengi og Netanjahú en hann tók við embætti forsætisráðherra árið 2009. Hann hefur nú verið ákærður fyrir fjársvik og er mál hans enn fyrir dómi.
Fernar kosningar á tveimur árum
Stjórnarkreppa hefur ríkt í Ísrael síðustu tvö ár. Fernar þingkosningar hafa farið fram á síðustu tveimur árum en flokkunum ekki tekist að mynda ríkisstjórn eftir þær. Síðast var kosið í mars og fékk Netanjahú umboð frá forseta landsins til að mynda ríkisstjórn en tókst það ekki.
Lapid hefur nú það umboð og hefur fram á miðvikudag til að lýsa yfir nýju ríkisstjórnarsamstarfi. Það virðist ætla að hafast hjá honum eftir að hann og Bennett náðu saman í dag.