Borgarstjórn samþykkti á fundi sínum í fyrradag tillögu borgarstjóra sem lögð var fyrir borgarráð 18. maí síðastliðinn um að lækka gjaldskrá fyrir hundahald umtalsvert.
Nýskráningargjald hunda lækkar úr 20.800 krónum í 2.000 krónur. Við skráningu þarf einnig að greiða árlegt eftirlitsgjald sem er nú 9.900 krónur en var fyrir lækkun 19.850 krónur. Þá er einnig heimild til að lækka eftirlitsgjald í 6.900 krónur, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Gjald fyrir handsömun óskráðra hunda helst 30.200 krónur.
Í greinargerð Borgarstjóra kemur fram að tilgangur tilraunaverkefnisins sé að fjölga skráðum hundum. Fjöldi skráðra hunda fari lækkandi og nauðsyn sé að snúa þeirri þróun við.
Gert er ráð fyrir að verkefninu fylgi töluverður kostnaður. Til þess að verkefnið standi undir sér, án aukinna fjárveitinga, þyrfti fjöldi skráðra hunda að nær tvöfaldast. Því er áætlað kostnaðarmat verkefnisins ellefu milljónir króna fyrir fyrsta árið. Þá er einnig gert ráð fyrir að nýstofnuð Dýraþjónusta Reykjavíkur muni óska eftir viðbótarfjárheimildum á meðan á verkefninu stendur.