Yandy smitaðist af Covid á Everest um miðjan síðasta mánuð. Hann var slappur þegar hann hóf för sína úr grunnbúðunum í aðrar búðir en þegar þangað var komið tók honum mjög að hraka. „Ég fæ svo símtal um að ég verði að panta þyrlu fyrir hann því hann er orðinn svo veikur,“ segir kona hans Halldóra Bjarkadóttir við Vísi. Mbl.is greindi fyrst frá því að Yandy væri á gjörgæslu.
Veður var þó svo vont á fjallinu að þyrlan komst ekki að sækja Yandy fyrr en tveimur dögum síðar. „Hann var síðan fluttur á spítala og er greindur þar með Covid og lungnabólgu og blóðtappa í öðrum fæti,“ segir Halldóra.

Heppinn að hafa ekki dáið á hótelinu
Hann greindist síðan neikvæður eftir skimun fyrir Covid-19 síðasta fimmtudag og var þá útskrifaður af spítalanum. „Nema hvað að hann er ekki búinn að vera lengi á hótelinu þegar hann byrjar að fá svakalega verki í báða fótleggi, sem versna og versna og síðan um nóttina er hann kominn með mikinn verk í bringuna.“
Hann leitaði því aftur á spítalann daginn eftir og kom þá í ljós að hann væri kominn með blóðtappa í lungun og báða fætur. Hann var þá lagður inn á gjörgæslu og er þar enn að ná sér.
„Hann er bara heppinn að hafa ekki dáið þarna á hótelinu,“ segir Halldóra.
Hún mun fljúga út til hans þegar hann verður útskrifaður af gjörgæslunni til að hjálpa honum heim. Hún gerir ráð fyrir að það verði eftir um tvær vikur.
Yandy hefði orðið fyrsti Kúbverjinn til að ná að klífa á tind Everest-fjalls en hann er jafnframt sá fyrsti til að reyna við tindinn. Halldóra segir hann eðlilega mjög svekktan með að faraldurinn hafi eyðilagt þessa drauma hans.