Neytendur

Mikill munur á verði á sumarnámskeiðum hjá íþróttafélögum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Vafalítið fara einhver leikjanámskeiðin á höfuðborgarsvæðinu í ferð í Nauthólsvík.
Vafalítið fara einhver leikjanámskeiðin á höfuðborgarsvæðinu í ferð í Nauthólsvík. Vísir/Vilhelm

Heilmikill munur er á verði á þeim námskeiðum sem standa grunnskólabörnum til boða yfir sumartímann samkvæmt úttekt verðlagseftirlits Alþýðusambands Íslands. Tímagjald fyrir íþrótta- og leikjanámskeið á Akureyri er 133 krónur á meðan gjaldið er þrisvar til fjórum sinnum hærra í Kópavogi.

Foreldrar þurfa í flestum tilfellum að skipuleggja frítíma barna í nokkrar vikur yfir sumarið svo þeir geti sinnt vinnu á meðan skólar landsins eru lokaðir og foreldrarnir ekki komnir í frí. Grunnskólar eru lokaðir í um 10 vikur og ef gert er ráð fyrir að foreldrar eigi um 5 vikna sumarfrí standa 5 vikur eftir sem þarf að finna eitthvað fyrir börnin að gera. Margir foreldrar reiða sig því á sumarnámskeið sem geta verið kostnaðarsöm þrátt fyrir að ódýrustu námskeiðin séu valin. Verðlagseftirlit ASÍ hefur tekið saman verð á hinum ýmsu sumarnámskeiðum sem standa foreldrum til boða í ár.

Námskeiðin eru ólík að gerð og fyrir ólík aldursbil og mikill munur er á verði á námskeiðunum. Lægsta tímagjald fyrir sumarnámskeið í úttektinni er 133 krónur en það hæsta 2.387 krónur og þannig er 1.695% munur á hæsta og lægsta tímagjaldi á þeim námskeiðum sem úttektin nær til. Þá er töluverður verðmunur á sambærilegum íþrótta- og fjölgreinanámskeiðum sem standa til boða hjá íþróttafélögum. Sem dæmi er tímagjald á slíkum hálfs dags námskeiðum 133 krónur hjá KA, 193 krónur hjá Gróttu, 275 krónur hjá Haukum, 345 krónur hjá Stjörnunni og 478 krónur hjá HK og Breiðablik.

ASÍ vekur athygli á sérstökum íþrótta- og tómstundastyrkjum sem standa tekjulægri heimilum til boða sem hægt er að nýta til að greiða fyrir sumarnámskeið. 

Dýrt í dans og myndlist

Tímagjöld á íþrótta- og fjölgreinanámskeiðum á vegum íþróttafélaganna og sumarfrístund hjá sveitarfélögunum í lægri kantinum

Lægsta tímagjaldið á námskeiði af þeim sem þessi úttekt nær til er íþrótta- og leikjaskóli á vegum KA. Tímagjald fyrir tveggja vikna námskeið sem stendur í 4,5 tíma á dag (með gæslu) er 133 krónur og kostar námskeiðið því 6 þúsund krónur. Tímagjaldið á sambærilegu námskeiði hjá HK er 487 krónur og er verðbil á slíkum námskeiðum því töluvert. Verð á námskeiðum hjá íþróttafélögunum er þó almennt í lægri kantinum af þeim námskeiðum sem standa til boða sem og verð á frístundanámskeiðum hjá sveitarfélögunum.

Til samanburðar er verð á námskeiðum í ýmsum listgreinum, t.d. myndlist og dansi og tæknitengdum námskeiðum almennt í hærri kantinum. Sama má segja um verð á reiðnámskeiðum, ýmsum sundnámskeiðum og hjólanámskeiðum. Tímagjald á slíkum námskeiðum er yfirleitt á bilinu 1 þúsund-2 þúsund krónur Hæsta tímagjaldið í úttektinni er á námskeiðum hjá Myndlistarskóla Kópavogs, 2.387 krónur sem standa í 1,5 klst. í fimm daga. Næst hæsta tímagjaldið er á dansnámskeiði hjá Brynju Péturs, 2.083 krónur en það námskeið er tvisvar í viku í þrjár vikur í klukkutíma í senn.

Dæmi um kostnað fyrir námskeið fyrir 8 ára barn

Kostnaður við sumarnámskeið ræðst af því hvaða námskeið eru valin og hversu langan tíma börnin þurfa að vera á námskeiðum. Hér að neðan má sjá dæmi um kostnað fyrir sumarnámskeið í 5 vikur fyrir fjölskyldu á höfuðborgarsvæðinu með 8 ára barn.

Sérstakir Covid styrkir til niðurgreiðslu á sumarnámskeiðum

Í mörgum sveitarfélögum stendur til boða að nýta frístundastyrki upp í sumarnámskeið en slíkir styrkir hrökkva skammt ef þeir eiga bæði að nýtast í tómstundir yfir veturinn og standa straum af kostnaði við sumarnámskeið. 

Vakin er athygli á því að í ár standa til boða sérstakir íþrótta- og tómstundastyrkir vegna Covid fyrir börn sem búa á tekjulægri heimilum en hægt að nota styrkinn upp í greiðslu fyrir sumarnámskeið. Styrkurinn er fyrir börn fædd á árunum 2005-2014 og búa á heimili þar sem heildartekjur heimilisins voru að meðaltali lægri en 740 þúsund krónur á mánuði á tímabilinu mars–júlí 2020. 

Opið er fyrir umsóknir um styrkinn til 31. júlí 2021. Hér er hægt að lesa um styrkinn og sækja um

Um úttektina

Skoðuð voru verð á námskeiðum íþróttafélaga, á vegum íþrótta- og tómstundarráða, sveitarfélaga, skátafélaga og frjálsra félagasamtaka. Námskeiðunum í könnuninni er skipt eftir fjölda námskeiðsdaga og klukkustunda á dag.

Víða er boðin gæsla á morgnana áður en námskeiðin hefjast, í hádeginu og eftir að dagskrá námskeiðanna lýkur á daginn. Ef slík gæsla er í boði er hún tekin með í fjölda tíma sem námskeið stendur yfir. Misjafnt er hvort greiða þurfi aukalega fyrir þessa gæslu eða hvort hún er innifalin í námskeiðsgjaldinu.

Sama er að segja um hádegisverð og hressingu, matur er sjaldnast innifalinn í námskeiðsgjaldinu, en oft er hægt að kaupa heitan mat gegn vægu gjaldi. Það gjald sem gefið er upp í könnuninni er ávallt miðað við eitt stakt námskeið þannig að ekki er tekið tillit til afsláttarverðs t.d. iðkendaafsláttar eða systkinaafsláttar.

Auk þess ber að athuga að hér er aðeins um verðsamanburð en ekki mat á gæðum eða þjónustu. Úrvalið af sumarnámskeiðum fyrir börn og unglinga er mjög mikið og þessi könnun nær aðeins yfir hluta þeirra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×