Átta manna dómnefnd mun hlusta á framburð vitnanna, sem eru um þrjátíu talsins, og munu vitnaleiðslurnar standa yfir í fjóra daga. Vitnaleiðslurnar eru ekki á vegum breska ríkisins og bresk yfirvöld ekki þurfa að grípa til aðgerða, byggt á niðurstöðu dómnefndarinnar, en skipuleggjendur vonast til þess að gögnin muni varpa ljósi á alvarleika málsins.
Meðal meðlima dómnefndarinnar eru fræðimenn, lögmenn og fyrrverandi diplómati. Athafnamaðurinn Nick Vetch stendur að baki vitnaleiðslnanna, sem skipuleggjendur kalla Ugyhur Tribunal, eða Dómstól Úígúra.
Kínversk yfirvöld hafa verið sökuð um mannréttindabrot og þjóðarmorð í Xinjang. Xinjang er gríðarstórt hérað í norðvesturhluta landsins, sem er heimkynni Úígúra og annarra múslimaþjóða.
Sérfræðingar segja að minnst milljón Úígúrar og aðrir múslimar hafi verið handteknir í héraðinu og haldið föngum í fanga- eða vinnubúðum. Þá hafa einstaklingar sem hafa sloppið úr slíkum búðum sagt pyntingar hafa farið fram í búðunum og meira að segja lýst því hvernig fólk hefur verið gert ófrjótt, gegn vilja sínum.
Kínversk yfirvöld hafa þvertekið fyrir þessar ásakanir og sagt búðirnar, sem má finna víða í Xinjang, vera endurmenntunarbúðir.