Mörg fyrirtæki hættu að láta fé af hendi rakna til stjórnmálamanna eftir að æstur múgur stuðningsmanna Trump réðst á þinghúsið til þess að reyna að koma í veg fyrir að þingmenn staðfestu kjör Joes Biden sem forseta 6. janúar.
JPMorgan hefur nú ákveðið að byrja að veita styrki aftur í gegnum pólitíska aðgerðanefnd á vegum þess. Það ætlar hins vegar að hætta að styrkja nokkra af þeim 147 þingmönnum repúblikana sem greiddu atkvæði gegn því að staðfesta kjör Biden sem það hefur gefið fé í gegnum tíðina, að sögn Reuters-fréttastofunnar.
Meirihluti fulltrúadeildarþingmanna repúblikana greiddi atkvæði gegn því að staðfesta úrslit forsetakosninganna jafnvel eftir að múgurinn braust inn í þinghúsið þannig að þingmenn þurftu að fela sig á bak við læstar dyr.
Þingmennirnir, sem ekki voru nefndir sérstaklega í minnisblaði bankans, verða úti í kuldanum hjá JPMorgan fram yfir þingkosningarnar í nóvember á næsta ári. Þá ætlar fyrirtækið að meta stöðuna aftur og ákveða hvort það haldi áfram að gefa þingmönnunum fé.
Repúblikanar í báðum deildum Bandaríkjaþings lögðust gegn þverpólitísku frumvarpi um stofnun óháðrar rannsóknarnefndar til að rannsaka árásina á þinghúsið. Öldungadeildarþingmenn flokksins drápu frumvarpið á endanum með málþófi.