1.502 atkvæði höfðu verið talin klukkan 19 en gert er ráð fyrir að um 7.500 hafi tekið þátt í prófkjörinu. Guðlaugur leiðir með 765 atkvæði í fyrsta sætið. Áslaug kemur þar á eftir með 1.001 atkvæði í fyrsta til annað sætið.
Diljá Mist Einarsdóttir, aðstoðarmaður Guðlaugs, er í þriðja sætinu með 601 atkvæði í fyrsta til þriðja sæti.
Brynjar Níelsson þingmaður er í fjórða sæti eftir fyrstu tölur, Hildur Sverrisdóttir, aðstoðarmaður ferðamála-, iðnaðar og nýsköpunarráðherra í því fimmta, Birgir Ármannsson þingmaður í sjötta sæti, Kjartan Magnússon, fyrrum borgarfulltrúi, í því sjöunda og í áttunda sætinu er þingmaðurinn Sigríður Á Andersen.
Nóttin er ung
„Þetta eru nú bara fyrstu tölur. Aðalatriðið er þetta, að þetta er búið að vera stórt prófkjör og mikill gangur. Það hefur verið afskaplega gaman að starfa í þessu, mikil gleði og við höldum bara áfram í því. En eins og ég segi: nóttin er ung og þetta eru bara fyrstu tölur. Það getur allt breyst í þessu," sagði Guðlaugur Þór í beinni útsendingu í kvöldfréttum Rúv þar sem tölurnar voru kynntar.
Atkvæðin sem hafa verið talin eru utankjörfundaratkvæði sem greidd voru fyrr í vikunni og einhver þeirra atkvæða sem greidd voru á kjörstöðum í gær.
„Það eru auðvitað tvö oddvitasæti í þessum kjördæmum þannig þetta er bara glæsilegt prófkjör og við getum verið afar stolt af þessu," sagði Áslaug Arna.
Næstu tölur verða birtar klukkan 21 og 23 í kvöld.
Hér má sjá hvernig atkvæðin skiptast milli efstu átta frambjóðanda samkvæmt fyrstu tölum:
- Guðlaugur Þór Þórðarson: 765 atkvæði í 1. sæti.
- Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir: 1.001 atkvæði í 1.-2. sæti.
- Diljá Mist Einarsdóttir: 601 atkvæði í 1.-3. sæti.
- Brynjar Níelsson: 573 atkvæði í 1.-4. sæti.
- Hildur Sverrisdóttir: 753 atkvæði í 1.-5. sæti.
- Birgir Ármannsson: 885 atkvæði í 1.-6. sæti.
- Kjartan Magnússon: 777 atkvæði í 1.-7. sæti.
- Sigríður Á Andersen: 675 atkvæði í 1.-8. sæti.
Fréttin hefur verið uppfærð.