Innlent

Lögregla kölluð til vegna þjófnaðar á skiptimynt

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Það var nokkuð annríki hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og nótt.
Það var nokkuð annríki hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og nótt. Vísir/Egill

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var kölluð til um kl. 2 í nótt vegna þjófnaðar á skiptimynt. Íbúðareigandi hafði kynnst meintum þjófum skömmu áður og boðið þeim heim en þeir hlaupið á brott með myntina.

Atvikið átti sér stað í miðbænum en þangað var lögregla einnig kölluð á vettvang í kjölfar umferðaróhapps á Laugavegi, þegar ósætti kom upp meðal vegfarenda.

Í Hafnarfirði fór lögregla á vettvang og ræddi við aðila eftir að tilkynnt var um líkamsárás. Þá sinnti hún einnig útkalli þar sem par var staðið að þjófnaði úr verslun.

Um kvöldmatarleytið var tilkynnt um þjófnað í verslun í Seljahverfi en gerendur reyndust undir lögaldri og var málið afgreitt með aðkomu foreldra.

Skömmu áður var tilkynnt um slagsmál við verslunarkjarna í umdæmi lögreglunnar í Grafarvogi, Mosfellsbæ og Árbæ. Einn leitaði á bráðamóttöku eftir slagsmálin en lögregla náði tali af meintum geranda.

Í Árbæ voru tveir handteknir eftir að hafa hótað leigubílstjóra, ásamt því að hafa ekki greitt fargjald. Voru þeir vistaðir í fangaklefa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×