Skoðun

Dyggða­skreytingar­á­rátta á­hrifa­valda

Helgi Áss Grétarsson skrifar

Í mannkynssögunni er það þekkt hversu þægilegt það er að fylgja fjöldanum og að almannarómur eigi að duga til að meta menn og málefni. Dyggðaskreyting þeirra sem vilja auka veg sinn og frama á kostnað annarra er því sígilt fyrirbæri. Á miðöldum gat slík dyggðaskreyting birst í fögnuði valda- og áhrifamanna með því að kona, sem sökuð var um galdra, flaut en ekki sökk og þar af leiðandi var hún norn og brenna mátti hana á báli.

Um þessar mundir þykir réttlætanlegt að „rétta yfir gerendum“ í kynferðisbrotamálum á samfélagsmiðlum á borð við twitter, instagram og facebook. Svokallaðir áhrifavaldar taka stundum þátt í slíkum „réttarhöldum“ og veigra sér þá ekki við að hneykslast á einhverju sem viðkomandi varð þó aldrei vitni að og veit takmarkað um. Slíkt þykir mér ömurlegt og sýnir viðleitni þeirra sem standa akkúrat núna vel í lífinu til að sparka í liggjandi mann. Á tungutaki pólitískt rétthugsandi netverja er þessi afstaða mín sjálfsagt skilgreind sem „gerendameðvirkni“ en um það snýst þó ekki málið.

Augljóst má vera að það sé hræðilegt þegar kynferðisbrot er framið og gegn slíku samfélagsböli þarf að berjast. Erfiðleikar við sönnun í þessum brotaflokki geta á hinn bóginn ekki réttlætt að dómstóll götunnar taki alfarið við. Enn er í gildi sú regla í stjórnarskránni að allir sem eru bornir sökum um refsiverða háttsemi séu saklausir uns sekt er sönnuð. Einnig verður ekki framhjá því horft að jafnvel þótt ásakanir séu sannar um refsiverða háttsemi þá er það einnig samfélagslegt böl að „réttað sé yfir“ nafngreindum einstaklingi á samfélagsmiðlum án þess að nokkurrar sanngirni sé gætt í málsmeðferð við mat á sekt eða sýknu viðkomandi. Eitt böl verður ekki lagfært með því að koma á öðru og jafnvel verra böli.

Að lokum, í þessu andrúmslofti útilokunarmenningar, er sú spurning áleitin fyrir hvern og einn, hvenær kemur röðin að mér að vera „kærður og sakfelldur“ á samfélagsmiðlum?

Höfundur er lögfræðingur.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×