„Landamæri fjallar um fegurð þess að opna hjartað og vegferðina þangað, um breiskleika mannsins og hvað það getur verið mikið átak að gefa eftir og treysta,“ segir Lára um lagið.
„Ég græt milljón tárum og ég græt allan himininn. Ég græt það sem ég get ekki stjórnað, það sem ég hef elskað og misst eða aldrei átt. Ég hef skapað á milljón árum landamærin umhverfis mig.“
Lagið vann Lára með upptökustjóranum Arnari Guðjónssyni (Warmland, Leaves) en þau eru nú að leggja lokahönd á komandi breiðskífu Láru. Lagið Landamæri má heyra í spilaranum hér fyrir neðan.
Lára er tónlistarkona, frumkvöðull og meðferðaraðili. Hún er stofnandi og eigandi af ANDAGIFT // INSPIRE sem er vettvangur fyrir sköpun, samfélag og heilun. Lára er jógakennari, hljóðheilari og nemi í NA- Shamanisma.

Hún er með meistaragráðu í Kynjafræðum og er einn stofnanda KÍTÓN, félags kvenna í tónlist en Lára gegndi þar bæði formennsku og varaformennsku fyrstu ár félagsins. Lára hefur gefið út sex sólóplötur og fékk íslensku tónlistarverðlaunin fyrir lag sitt Altari árið 2020. Lára er annar meðlimur hljómsveitarinnar SILVRA, ásamt Arnari Guðjónssyni, en tónlist SILVRU er meðal annars spiluð í Retreat Spa Bláa Lónsins.