Innlent

Strauk úr sótt­varna­húsinu og gekk í skrokk á fyrr­verandi

Elma Rut Valtýsdóttir skrifar
Héraðsdómur Reykjavíkur
Héraðsdómur Reykjavíkur

Karlmaður var í gær dæmdur í tíu mánaða fangelsi fyrir líkamsárásir og brot á nálgunarbanni gegn fyrrverandi kærustu sinni og brot á sóttvarnarlögum. 

Um er að ræða tólf brot sem öll áttu sér stað á þessu ári. Þar af eru þrjár líkamsárásir, sex brot á nálgunarbanni og þrjú brot á sóttvarnalögum.

Ofbeldisbrotin voru öll gegn fyrrverandi kærustu mannsins. Fyrsta árásin átti sér stað í janúar á þessu ári, þegar maðurinn sló konuna í andlitið. Í febrúar sló hann hana aftur, með þeim afleiðingum að hún hlaut blóðnasir, skrámu á gagnauga og bólgu á vanga. Þriðja árásin átti sér stað í mars, en þá tók hann konuna hálstaki og sló hana þrisvar í andlitið, svoleiðis að konan hlaut mar á andliti, kjálkabrot, opið sár og mar á augnsvæði. 

Maðurinn gerðist jafnframt sekur um að brjóta nálgunarbann sex sinnum, gegn fyrrverandi kærustunni, á tímabilinu 18. febrúar til 5. apríl.

Þá átti maðurinn að vera í sóttkví í sóttvarnahúsinu á Rauðarárstíg frá 16. -26. mars, en yfirgaf húsið í þrígang á meðan dvölinni stóð og braut þar með sóttvarnarlög.

Þegar maðurinn yfirgaf húsið í annað sinn, þann 18. mars, fór hann heim til fyrrverandi kærustunnar þar sem hann braut nálgunarbann og gekk í skrokk á henni. Maðurinn gerðist þannig sekur um þrjú brot á einu bretti.

Maðurinn játaði öll brot sín og var dæmdur til tíu mánaða fangelsisvistar, auk þess að borga 829.440 króna í lögfræði- og sakarkostnað. Með brotum sínum rauf maðurinn jafnframt skilorð, en hann hefur áður gerst sekur um fíkniefnalagabrot, umferðarlagabrot og auðgunarbrot.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×