Innlent

„Getur Haraldur Bene­dikts­­son ekki keppt við konu án hótana?“

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Sjálfstæðiskonur eru ekki sáttar með nýjasta útspil Haralds.
Sjálfstæðiskonur eru ekki sáttar með nýjasta útspil Haralds. vísir/samsett

Yfir­lýsingar Haralds Bene­dikts­sonar, þing­manns Sjálf­stæðis­flokksins, í dag hafa vægast sagt farið öfugt ofan í margar samflokkskonur hans.

Haraldur sagðist ekki mundu þiggja annað sæti á lista flokksins tapi hann odd­vita­slagnum við Þór­dísi Kol­brúnu Reyk­fjörð Gylfa­dóttur í próf­kjöri flokksins í Norð­vestur­kjör­dæmi um næstu helgi. 

Haraldur er odd­viti flokksins í kjör­dæminu en Þór­dís Kol­brún er vara­for­maður flokksins og sitjandi ferða­mála- iðnaðar- og ný­sköpunar­ráð­herra.

Margar þekktar Sjálf­stæðis­konur hafa tjáð sig um yfir­lýsingar Haralds á sam­fé­lags­miðlum í dag og segja þær helst vera „frekju og fýlu­stjórnun“, „aula-múv“ eða hótanir við sam­flokks­menn og kjós­endur.

Sama útspil og árið 2013

Rósa Guð­munds­dóttir, for­maður bæjar­ráðs Grundar­fjarðar og bæjar­full­trúi Sjálf­stæðis­flokksins, var einna fyrst Sjálf­stæðis­kvenna til að tjá sig um þessar vendingar í próf­kjöri kjör­dæmis síns.

Hún rifjaði það upp að Haraldur hefði áður beitt sömu taktík. Í próf­kjöri Sjálf­stæðis­flokksins í kjör­dæminu árið 2013 sóttust bæði hann og Ey­rún Ingi­björg Sig­þórs­dóttir, þá­verandi sveitar­stjóri á Tálkna­firði og vara­þing­maður, eftir öðru sæti á lista flokksins. Þá lýsti Haraldur því yfir á kjör­dæmis­þingi að annað­hvort tæki hann annað sætið eða ekki þátt í framboðinu.

Rósa segist þá hafa hugsað með sér að fólk yrði að ráða því sjálft á hvaða for­sendum það hellti sér út í pólitíkina þó henni hafi þótt þetta ó­merki­legt af Haraldi. Yfir­lýsingar hans í dag vekja þó upp spurningu hjá henni:

„Getur Haraldur Bene­dikts­son ekki keppt við konu án hótana?“

Borgarfulltrúar og bæjarstjórar taka undir

Og þetta virðast þær Sjálf­stæðis­konur sem tjá sig um málið í dag helst telja að sé vanda­málið – það að Haraldur sé hræddur um að tapa fyrir konu:

„Ég get ekki orða bundist. Hvílík og önnur eins frekja og fýlu­stjórnun gagn­vart kjör­dæminu. Haraldur gefur kost á sér gegn vara­for­manni og ráð­herra sem vill svo til að er kona. Honum finnst það slík höfnun ef kjör­dæmið velur hana í fyrsta sæti um­fram hann að hann hótar að hætta fari svo,“ skrifar Nanna Kristín Tryggva­dóttir. Hún er for­maður efna­hags- og við­skipta­nefndar Sjálf­stæðis­flokksins og var kosninga­stjóri Ás­laugar Örnu Sigur­björns­dóttur dóms­mála­ráð­herra í próf­kjöri hennar í Reykja­vík fyrr í mánuðinum.

Við­brögð við færslu Nönnu standa ekki á sér því þekktar Sjálf­stæðis­konur smella læki við færsluna til að taka undir með henni, eða að minnsta kosti lýsa yfir á­nægju með að hún tjái sig um málið.

Þar má til dæmis nefna Völu Páls­dóttur, for­mann Lands­sam­bands Sjálf­stæðis­kvenna, Ást­hildi Sturlu­dóttur, bæjar­stjóra Akur­eyrar­bæjar, borgar­full­trúana Katrínu Atla­dóttur og Hildi Björns­dóttur og Guð­björgu Odd­nýju Jónas­dóttur, vara­bæjar­full­trúa í Hafnar­firði.

Þor­björg Helga Vig­fús­dóttir, fyrr­verandi borgar­full­trúi Sjálf­stæðis­flokksins, gagn­rýnir Harald einnig og lýsir yfir stuðningi sínum við Þór­dísi Kol­brúnu:

„Hversu mikið aula-múv er þetta? Hver vill svona mann­eskju í odd­vita­sæti? Á­fram Þór­dís Kol­brún Reyk­fjörð Gylfa­dottir, ekki láta neina fýlu­stjórnun hafa á­hrif á neitt.“

Sig­þrúður Ár­mann, sem hafnaði í sjötta sæti í próf­kjöri Sjálf­stæðis­flokksins í Suð­vestur­kjör­dæmi, er ó­sátt við Harald og segir „svona hótun“ honum ekki til sóma. „Mikið vildi ég óska þess að Haraldur tæki heildar­hags­muni Sjálf­stæðis­flokksins fram­yfir eigin hag,“ skrifar hún.

Haraldur klóri í bakkann

Þá greinir Ás­laug Hulda Jóns­dóttir, bæjar­full­trúi flokksins í Garða­bæ til ellefu ára, út­spil Haralds á Face­book hjá sér: „Haraldur hefur senni­lega lesið stöðuna þannig að hann myndi ekki ná fyrsta sætinu. Það ætti ekki að koma á ó­vart þar sem maðurinn gefur kost á sér gegn öflugum vara­for­manni og ráð­herra Sjálf­stæðis­flokksins,“ skrifar hún.

„Þá gerir hann það eina sem hann kann, og eitt­hvað sem hefur virkað fyrir hann áður, hann hótar sam­flokks­mönnum sínum og kjós­endum nokkrum dögum fyrir kjör­dag! Ekki treysta, bara hóta. Eru tímar stjórn­mála­manna sem beita slíkum að­ferðum og gefa kjós­endum sínum afar­kosti ekki bara búnir? Nú­tíðin, fram­tíðin og vandaðri vinnu­brögð voru nefni­lega að hringja!“

Leik­konan Edda Björg­vins­dóttir vill þá að konur taki höndum saman til að passa al­mennt upp á „kjark­miklu konurnar sem nenna að taka til í stjórn­mála­flokkunum“. Hún lýsir þar yfir stuðningi við Þór­dísi Kol­brúnu.

Sérstök staða

Staðan sem er uppi hjá Sjálfstæðisflokknum í kjördæminu er nokkuð sérstök. Haraldur er oddviti kjördæmisins eins og er, sat í fyrsta sæti á lista hans í kjördæminu fyrir síðustu kosningar en Þórdís Kolbrún í öðru sætinu. Þau eru einu þingmenn flokksins í kjördæminu.

Þegar ríkis­stjórn Sjálf­stæðis­flokks, Vinstri grænna og Fram­sóknar­flokksins var mynduð var Þór­dísi Kol­brúnu hins vegar boðið ráð­herra­sæti, sem ferða­mála- iðnaðar- og ný­sköpunar­ráð­herra, en ekki Haraldi. Hún varð síðan vara­for­maður flokksins í mars 2018.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×