Um­fjöllun og við­töl: ÍA - KA 0-2 | Gestirnir fara heim með þrjú stig

Sverrir Már Smárason skrifar
Dušan Brković skoraði fyrra mark KA í dag.
Dušan Brković skoraði fyrra mark KA í dag. Vísir/Hulda Margrét

Dusan Brkovic kom KA í 1-0 á 11.mínútu. Nökkvi Þeyr átti þá skot að marki Skagamanna sem Dino Hodzic, markvörður ÍA, varði til hliðar en Dusan var fyrstur að átta sig og fylgdi vel á eftir.

Skagamenn náðu aðeins að vinna sig inn í leikinn þegar leið á fyrri hálfleikinn en sköpuðu sér ekki nægilega góð færi og staðan því 0-1 fyrir gestina í hálfleik.

Seinni hálfleikurinn var keimlíkur þeim fyrri. KA menn byrjuðu betur og tókst að bæta við marki á 70.mínútu þegar boltinn datt til fyrirliðans, Ásgeirs Sigurgeirssonar, inni í teig Skagamanna. Hann reyndi skot sem var varið af varnarmanni en Ásgeir fékk boltann aftur og náði að skora fram hjá Dino í markinu.

Eftir seinna markið reyndu Skagamenn hvað þeir gátu að skapa sér færi en þétt vörn KA hélt virkilega vel. Á 85.mínútu fékk Óttar Bjarni Guðmundsson, fyrirliði ÍA, beint rautt spjald fyrir glæfralega tæklingu á Hallgrími Mar. Í kjölfarið fékk svo Hrannar Björn, leikmaður KA en liðsstjóri í dag, einnig að líta rautt spjald. Eftir það fjaraði leikurinn út og KA keyra því heim með þrjú stig í kvöld.

Af hverju vann KA?

Varnarleikur KA liðsins var í raun það sem skóp þennan sigur. Liðið var vel skipulagt í heild og sóknarmönnum ÍA gekk illa að finna sér pláss til að spila í. KA liðið skapaði sér ekki mörg færi en nýttu þá sénsa sem þeim var gefinn í kvöld.

Hverjir stóðu upp úr?

Markaskorararnir stóðu upp úr í kvöld. Dusan Brkovic var frábær varnarlega allan leikinn og skoraði gott mark. Ásgeir Sigurgeirsson olli varnarmönnum ÍA vandræðum allan leikinn og uppskar mark um miðjan seinni hálfleik. Var lykilmaður í hröðum sóknum og miðpunktur sókna KA.

Hvað gekk illa?

Sóknarleikur ÍA gekk illa í kvöld. Þeim gekk illa að spila boltanum úr vörninni og upp völlinn, leituðu mikið í langar sendingar sem vörn KA leysti vel. Sóknarmenn ÍA enduðu oft einir ofarlega á vellinum þegar losa þurfti pressu.

Hvað gerist næst?

KA taka á móti Val í toppslag n.k. sunnudag kl. 16:00 en Skagamenn fara í Árbæinn og spila við Fylki sama dag kl. 17:00.

Við erum bara gríðarlega sáttir

Hallgrímur Jónasson, aðstoðarþjálfari KA.KA

Hallgrímur, aðstoðarþjálfari KA, var glaður eftir sigurinn í kvöld.

„Við erum bara gríðarlega sáttir, skorum hérna tvö mörk og ég held að 3-4 bestu færin fyrir utan þau séu líka okkar færi en við erum bara mjög ánægðir með að vinna hérna og halda hreinu.“

KA er að spila sinn fyrsta leik eftir 3 vikna pásu. Hallgrímur segir liðið hafa æft vel.

„Við tókum bara frí, nei djók. Við bara æfðum vel og undirbjuggum okkur vel svo við erum ekkert að kvarta yfir því.“

Brynjar Ingi, leikmaður KA, stóð sig vel með A-landsliði Íslands í nýliðnum landsleikjaglugga og mikið hefur verið ritað og rætt um framtíð hans hjá KA.

„Það sem ég get sagt þér er að það er áhugi á honum, hann er búinn að vaxa gríðarlega, standa sig vel og gerði rosalega vel með landsliðinu. Það er vinna sem er búin að vera í gangi lengi sem skilaði því. Það er áhugi og þreifingar en ég veit ekki nákvæma stöðu á því.“


EM 2020 verður sýnt á Stöð 2 Sport EM 2020 sem er hluti af Sportpakkanum, Stóra pakkanum og Risapakkanum. EM 2020 verður einnig hægt að kaupa stakt á kr. 6.990 en fyrir viðskiptavini með aðra áskrift en ofangreindar frá Stöð 2 kostar áskriftin kr. 3.990.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira