Viðskipti innlent

Eim­skip gerir sátt og greiðir 1,5 milljarða í sekt

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Fyrirtækið mun greiða 1,5 milljarða í sekt.
Fyrirtækið mun greiða 1,5 milljarða í sekt. Vísir/Rakel

Eimskip og Samkeppniseftirlitið hafa undirritað sátt vegna ætlaðra brota Eimskips á árunum 2008 til 2013. Með sáttinni gengst Eimskip alvarleg brot gegn samkeppnislögum og EES-samningnum.

Í tilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu er greint frá þessu. Þar kemur þá fram að Eimskip skuldbindi sig til þess að greiða einn og hálfan milljarða króna í stjórnvaldssekt vegna brotanna, sem felast í víðtæku samráði við Samskip um ýmis atriði, meðal annars breytingar á siglingakerfum, skiptingu á mörkuðum ákveðinna flutningaleiða og um aðgerðir sem miðuðu að því að raska samkeppni í flutningsþjónustu.

Með sáttinni hefur Eimskip þá skuldbundið sig til þess að grípa til aðgerða til að vinna gegn frekari brotum og efla samkeppni. Þannig á Eimskip að gæta að því fyrir hendi sé virkt innra eftirlit í fyrirtækinu og áhersla lögð á fræðslu til að koma í veg fyrir að brot á samkeppnislögum endurtaki sig.

Samkeppniseftirlitið fékk ábendingar um áætluð brot Eimskips og Samskipa, bæði frá keppinautum og viðskiptavinum fyrirtækjanna. Samkeppniseftirlitið hóf rannsókn á málinu með húsleit hjá fyrirtækjunum árið 2013.

Síðan þá hefur eftirlitið haft málið til samfelldrar rannsóknar, sem er fordæmalaus að umfangi samkeppnismála hér á landi, að því er fram kemur í tilkynningu. Málið hefur þá sætt forgangi hjá eftirlitinu frá því það kom upp.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×