Handbolti

Fóru yfir hvort Þráinn Orri hefði átt að fá rautt í leik Vals og Hauka

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Umrætt atvik.
Umrætt atvik. Vísir/Hulda Margrét

Þráinn Orri Jónsson, leikmaður Hauka, átti mögulega að fá rautt spjald í leik Hauka og Vals í úrslitarimmu Olís deildar karla í handbolta. Atvikið var til umræðu í Seinni bylgjunni að leik loknum og má sjá í spilaranum neðst í fréttinni.

„Það voru flestir alveg 100 prósent á því að þetta yrði dæmt rautt spjald. Aftur fóru Sigurður Hjörtur og Svavar í VAR-græjuna góðu og nú spyr ég, er þetta rautt?“ spurði Henry Birgir Gunnarsson, þáttastjórnandi.

„Já ég held að þetta sé rautt spjald. Við sátum hérna fyrir einhverjum tíu dögum síðan og vorum að horfa á sömu dómara dæma, fara í skjáinn og gefa Agnari Smára rautt spjald fyrir minni sakir myndi ég segja. Ef það er rautt spjald, af hverju er þetta þá ekki rautt,“ sagði Theódór Ingi Pálmason, sérfræðingur.

„Það er miklu meiri harka, miklu hærra tempó og það eru miklu meri læti en dómararnir reyna oft að halda miklu fastari línu. Það er oft sem þeir – áður en þeir fóru að taka gulu spjöldin út – dúndruðu þeim á mannskapinn til að halda ró og ná stjórn á leiknum. Mér fannst það ekki heppnast vel hjá þeim í dag, fannst þeir ekki ná nægilega góðri stjórn á leiknum,“ sagði Bjarni Fritzson um dómgæsluna í leiknum.

Umræður Seinni bylgjunnar sem og atvikið sjálft má sjá í spilaranum hér að neðan.


Olísdeildirnar í handbolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×