Um er að ræða þá Magnús Guðbergsson, öryrkja í Suðurkjördæmi, og Björgvin Egil Vídalín Arngrímsson, eftirlaunaþega í Norðausturkjördæmi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá flokknum.
Fyrir höfðu tveir oddvitar í öðrum kjördæmum verið skipaðir, þeir Glúmur Baldvinsson, stjórnmálafræðingur í Reykjavíkurkjördæmi suður, og Guðmundur Franklín sjálfur í Reykjavíkurkjördæmi norður.
Í tilkynningunni kemur fram að oddvitar í Norðvesturkjördæmi og Suðurkjördæmi verði kynntir um helgina.
Efling lýðræðis og þjóðaratkvæðagreiðslur
Guðmundur Franklín var eini mótframbjóðandi Guðna Th. Jóhannessonar, sitjandi forseta, í forsetakosningunum sem fram fóru í júní á síðasta ári, en laut í lægra haldi. Í október á þessu ári var greint frá því að Guðmundur hygðist fara fram með framboð til Alþingis undir merkjum Frjálslynda lýðræðisflokksins, sem er með listabókstafinn O.
Á vef flokksins segir að hann leggi áherslu á að styrkja „grunnstoðir samfélagsins þar sem einstaklingurinn nýtur frelsis til athafna í gegnum sköpunarkraft og með frumkvæði að vopni.“
Flokkurinn vilji efla beint lýðræði og nota þjóðaratkvæðagreiðslur í mikilvægum málefnum. Þá er á vefnum að finna yfir 60 atriða lista með stefnumálum flokksins sem eru kjörnuð á stuttan hátt. Á meðal þeirra er að uppræta spillingu, lækka skatta og hafna Orkupakka 4.