Erlent

Þrjár konur létust í árásinni í Würzburg

Kjartan Kjartansson skrifar
Sjúkrabíll við vettvang árásarinnar í Würzburg í Bæjaralandi í gær.
Sjúkrabíll við vettvang árásarinnar í Würzburg í Bæjaralandi í gær. Vísir/EPA

Þrjú fórnarlömb árásarmanns sem gekk berserksgang með eggvopni í borginni Würzburg í Bæjaralandi í gær voru öll konur, að sögn lögregluyfirvalda. Hann særði auk þess fimm aðrar konur og eitt barn.

Árásarmaðurinn er 24 ára gamall sómalskur innflytjandi sem er talinn eiga við geðræn vandamál að stríða. Honum hafði nýlega verið gert að sæta meðferð á geðdeild og mögulegt er talið að hann hafi aðhyllst öfgakennda íslamstrú. Hann kom fyrir dómara í dag, sakaður um þrjú morð og sex tilraunir til manndráps.

Joachim Herrmann, innanríkisráðherra Bæjaralands, segir ekki ljóst hvort að þeir sem særðust mest komist lífs af.

Breska ríkisútvarpið BBC segir að maðurinn hafi gripið hníf í búsáhaldahluta stórverslunar og ráðist á fólk inni í henni. Þar varð hann sölukonu og tveimur öðrum konum að bana. Hann hjó einnig til fólks með hnífnum fyrir utan verslunina.

Lögreglumenn skutu árásarmanninn í lærið og náðu þá að yfirbuga hann.


Tengdar fréttir

Nokkrir látnir í hnífaárás í Þýskalandi

Að minnsta kosti þrír eru sagðir látnir og sex særðir eftir að karlmaður á þrítugsaldri gekk þar berserksgang með stóru eggvopni í borginni Würzburg í sunnanverðu Þýskalandi í dag. Árásarmaðurinn var handtekinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×