Innlent

Ef allt gengur eftir verða ríflega 70 prósent fullbólusett í vikulok

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Bólusetningar í Laugardalshöll.
Bólusetningar í Laugardalshöll.

Um 36 þúsund manns munu fá seinni skammt af bóluefnum gegn Covid-19 í vikunni, ef áætlanir ganga eftir. Þá verða yfir 200 þúsund manns fullbólusettir í vikulok.

Í þessari viku verður bólusett með bóluefnunum frá Moderna, Pfizer og AstraZeneca.

Samkvæmt Morgunblaðinu verða gefnir 4.000 skammtar frá Moderna í dag, 9.000 skammtar frá Pfizer á morgun og 11 til 12 þúsund skammtar frá AstraZeneca bæði á miðvikudag og fimmtudag.

Alls eru nú 60,1 prósent einstaklinga 16 ára og eldri fullbólusett og 27,5 prósent hálfbólusett.

Heildarfjöldi einstaklinga á þessum aldri er 295.298. Því ætti ríflega 71 prósent þjóðarinnar að verða fullbólusett í vikulok.

Í næstu viku verður bólusett með bóluefninu frá Pfizer á þriðjudag og mögulega með AstraZeneca á miðvikudag. Þá stendur til að ljúka bólusetningum með efnunum frá Pfizer og Moderna þriðjudaginn 13. júlí.

Eftir það verður gert hlé en gert er ráð fyrir að bólusetningar hefjist að nýju um miðjan ágúst, með breyttu sniði þó. Nýtt fyrirkomulag verður auglýst þegar nær dregur.

Enn er hægt að þiggja bólusetningu með bóluefninu frá Janssen og áhugasömum bent á að hafa samband við heilsugæsluna í gegnum netspjallið á heilsuvera.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×