Innlent

Lög­regla með­vituð um hópslags­­málin en getur lítið gert

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Guðmundur Pétur Guðmundsson, lögreglufulltrúi á höfuðborgarsvæðinu.
Guðmundur Pétur Guðmundsson, lögreglufulltrúi á höfuðborgarsvæðinu. Vísir/Egill

Lög­regla er með­vituð um hópslags­málin sem áttu sér stað í mið­bæ Reykja­víkur snemma síðasta sunnudagsmorgun. Hún getur þó lítið gert í málinu á meðan engar kærur hafa komið fram í málinu.

Upp­tökur sem veg­farandi nokkur tók af slags­málunum eru komnar til lög­reglunnar. Það stað­festir Guð­mundur Pétur Guð­munds­son lög­reglu­full­trúi við Vísi. Á upp­tökunni, sem fór í dreifingu í gær, mátti sjá hóp ungra pilta slást harka­lega við Lækjar­torg.

Þar ganga þrír þeirra harðast fram en þeir sjást meðal annars sparka í höfuð eins sem liggur í götunni.

„En ég veit ekki til þess að það hafi komið fram kærur í þessu. Þannig ég efast um að það sé byrjað að rann­saka þetta eitt­hvað,“ segir Guð­mundur Pétur.

 

Spurður hvort lög­reglan fari í sjálf­stæða rann­sókn á svona málum segir hann það erfitt á meðan engar kærur hafi komið fram og lög­reglan hafi engar upp­lýsingar um hverjir eigi hlut að máli.

„Það er voða­lega erfitt að gera það. Ekki nema við sjáum alveg veru­lega, veru­lega al­var­lega líkams­á­rás. Auð­vitað er þetta samt gróft,“ segir hann.

Hann minnist þess að svipað at­vik hafi komið upp fyrir nokkrum vikum þar sem mynd­band af hrotta­legri líkams­á­rás í mið­bænum fór í dreifingu. DV fjallaði ítar­lega um það mál á sínum tíma.

Guð­mundur Pétur segir að ekkert hafi komið út úr því máli hjá lög­reglu, enda hafi enginn látið hana vita af á­rásinni eða lagt fram kæru.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×