Innlent

Hjóli sjálfs Hjóla­hvíslarans stolið

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Hjólahvíslarinn. Hiti virðist vera að færast í leikinn hjá honum og hjólaþjófum borgarinnar.
Hjólahvíslarinn. Hiti virðist vera að færast í leikinn hjá honum og hjólaþjófum borgarinnar. vísir

Hjóli Bjart­mars Leós­­sonar var stolið í nótt. Sá hvim­­leiði og því miður nokkuð al­­gengi at­burður sem hjóla­­stuldur er væri varla frétt­­næmur nema vegna þess að Bjart­mar hefur í um tvö ár staðið í hálf­gerðu stríði við hjóla­­þjófa borgarinnar. Svo þekktur er hann fyrir þá baráttu sína að flestir þekkja hann sem Hjólahvíslarann.

Bar­átta Bjart­mars gegn hjóla­þjófunum náði lík­lega há­marki sínu í síðustu viku þegar hann mætti fylktu liði heim til manns sem Bjart­mar segist viss um að sé al­ræmdur hjóla­þjófur. Frá þessu var greint í kvöld­fréttum Stöðvar 2 í gær.

Og svo virðist sem hjólaþjófar borgarinnar hafi nú svarað fyrir sig. 

Þegar Bjart­mar vaknaði í morgun og ætlaði að halda af stað hjólandi út í daginn var hans eigið hjól horfið úr anddyri heimilis hans. Hann greinir frá þessu á vin­sælum Face­book-hópi sem hann heldur utan um.

„Þetta er auð­vitað bara mjög leiðin­legt. Ég gaf sem sagt vini mínum, sem var að fá sér rán­dýrt raf­magns­hlaupa­hjól, lásinn af hjólinu mínu um daginn,“ segir Bjart­mar.

„Það stóð auð­vitað til að kaupa nýjan lás en það hafði dregist að­eins. En hjólið mitt var samt læst með svona á­föstum lás þannig sá sem hefur stolið því hefur þurft að halda á því í burtu eða klippa lásinn af með vír­klippum.“

Hjól Bjartmars sem hvarf í nótt.aðsend

Sá manninn fyrir utan hjá sér í gær

Hann er spurður hvort honum þyki tíma­setningin nokkuð grun­sam­leg; mættur í kvöld­fréttirnar í gær þar sem sýnt var frá því þegar hann mætti heim til hjóla­þjófs og degi síðar er hans eigið hjól horfið.

„Jú tíma­setningin er sér­stök. Gæinn sem við heim­sóttum var líka fyrir utan húsið mitt í gær. Hann var hérna hinum megin við götuna. Það gæti alveg hafa verið til­viljun en af ein­hverju á­stæðum var maðurinn ná­lægt húsinu mínu í gær og í morgun var hjólið mitt horfið,“ segir Bjart­mar.

Hann mun nú að sjálf­sögðu setja sama kraft í að leita að eigin hjóli og hann hefur lagt í leit sína að hjólum annarra síðustu tvö árin.

„Já, það eru alltaf á­kveðnir staðir í bænum þar sem stolnu hjólin eru í­trekað að finnast og ég á eftir að fara og kíkja á þessa staði.“

Hann segist þá hafa fengið á­bendingu um að sést hafi til manns á eins hjóli og hann saknar nú í Hlíðunum klukkan fimm í nótt. Bjart­mar er búsettur í Hlíðunum.

Fréttastofa tók ítarlegt viðtal við Bjartmar í gær um hjólaþjófnafaraldur í borginni. Hægt er að horfa á viðtalið hér að neðan:




Fleiri fréttir

Sjá meira


×