Erlent

Ákæra fyrirtæki og fjármálastjóra Trump

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Donald Trump ásamt syni sínum Donald yngri. Fyrir aftan þá stendur Allen Weisselberg.
Donald Trump ásamt syni sínum Donald yngri. Fyrir aftan þá stendur Allen Weisselberg. AP/Evan Vucci

Bandarískir miðlar greina frá því að gefin hafi verið út ákæra á hendur Trump Organization, fyrirtæki fyrrverandi Bandaríkjaforseta, og fjármálastjóranum Allen Weisselberg vegna meintra skattalagabrota.

Búist er við því að yfirvöld birti ákærurnar í dag en ekki er vitað nákvæmlega hvað í þeim stendur. 

Ekki er búist við því að gefin verði út ákæra á hendur Donald Trump í tengslum við þetta tiltekna mál en fasteignamógúllinn er enn til rannsóknar hjá ákæruvaldinu fyrir ýmsar meintar sakir.

Rannsóknin á Weisselberg og öðrum stjórnendum fyrirtækisins hefur meðal annars beinst að því hvort þeir hafi notið fríðinda á borð við leigðar íbúðir og bifreiðar án þess að gefa það upp á skattaframtölum.

Trump og talsmenn hans segja ásakanirnar ekki á rökum reistar og að um sé að ræða pólitískar ofsóknir. Weisselberg hefur sjálfur sagt að þeir gjörningar sem hafi verið til rannsóknir tíðkist víða í bandarísku viðskiptalífi og feli ekki í sér nokkurn glæp.

Sektardómur í málinu gæti komið töluvert illa niður á fyrirtækinu, sem hefur þegar misst samninga við New York-borg í kjölfar innrásarinnar í þinghúsið í Washington í ársbyrjun. 

Kunnugir segja mögulegt að lánadrottnar gætu gjaldfellt skuldir fyrirtækisins og gert það gjaldþrota.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×