Erlent

Fjármálastjóri Trump gefur sig fram

Kjartan Kjartansson skrifar
Fyrirtæki Trump og fjármálastjóri þess eiga von á ákæru í New York.
Fyrirtæki Trump og fjármálastjóri þess eiga von á ákæru í New York. Vísir/Getty

Búist er við því að Allen Weisselberg, fjármálastjóri Trump-fyrirtækisins, verði leiddur fyrir dómara í dag eftir að hann gaf sig fram sjálfviljugur við saksóknara í New York. Hann og fyrirtækið sjálft eru ákærð fyrir skattalagabrot.

Ekki hefur verið greint frá efni ákæru umdæmissaksóknarans á Manhattan á hendur Trump-fyrirtækisins. New York Times segir að leynd verði að líkindum aflétt af ákærunni síðar í dag. Rannsókn saksóknarans hefur meðal annars beinst að því hvort að Weisselberg hafi greitt skatt af hlunnindum sem hann og fjölskylda hans fengu frá fyrirtækinu.

Weisselberg mætti ásamt lögmanni sínum á skrifstofu saksóknarans á sjöunda tímanum í morgun að staðartíma.

Í yfirlýsingu sem Trump-fyrirtækið sendi frá sér sakaði það saksóknarann um að nota Weisselberg sem „peð“ í herferð til að koma höggi á Donald Trump, fyrrverandi forseta, sem skilji eftir sig sviðna jörð.

Ekki er búist við því að Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, verði sjálfur ákærður í dag. Þegar hann var kjörinn forseti fól hann sjóði, sem synir hans og Weisselberg stýra, stjórn viðskiptaveldisins.

Saksóknarinn sameinaði rannsókn sína við aðra sem dómsmálaráðherra New York-ríkis stóð fyrir á sama tíma. Saman eru þeir sagðir rannsaka hvort að fyrirtæki Trump hafi blekkt fjármálastofnanir og skattayfirvöld með því að slá ýmist úr og í um verðmæti eigna sinna, allt eftir því hvað hentaði fyrir hvert tilefni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×