Innlent

Landsbjörg semur um smíði á þremur nýjum björgunarskipum

Árni Sæberg skrifar
Svona munu ný björgunarskip Landsbjargar koma til með að líta út.
Svona munu ný björgunarskip Landsbjargar koma til með að líta út. Landsbjörg

Slysavarnafélagið Landsbjörg hefur samið við finnsku skipasmíðastöðina KewaTec um smíði á þremur nýjum björgunarskipum. Stefnt er að því að skipin verði tekin í notkun fyrir mitt ár 2023.

Smíði á fyrsta skipinu hefst í lok október á þessu ári, en það leysir af hólmi 28 ára gamalt skip sem keypt var nýtt til Vestmannaeyja árið 1993. Afhending á því fer fram fyrir júnílok 2022, nánar tiltekið á goslokahátíð það ár. Annað skipið verður síðan afhent fyrir lok árs 2022 og það þriðja fyrri part árs 2023.

Nýju skipin leysa þrjú eldri skip af hólmi. Landsbjörg gerir út þrettán skip í samstarfi við björgunarsveitir víðs vegar á landinu. Skipafloti Landsbjargar er kominn vel til ára sinna en meðalaldur skipa í honum er 35 ár. Systursamtök Landsbjargar á Norðurlöndunum miða flest við að þeirra björgunarskip verði ekki eldri en 25 ára.

Skipin þrjú kosta sitt en kaupverð þeirra er 855 milljónir króna. Ríkið borgar helming kaupverðsins en Landsbjörg restina. Aðkoma ríkisins byggir á samkomulagi félagsins við Dómsmálaráðuneytið um að ríkið fjármagni verkefnið að hluta en í upphafi árs rituðu forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra, samgöngu- og sveitarstjórnaráðherra, auk dómsmálaráðherra undir viljayfirlýsingu um endurnýjun skipaflotans næstu tíu árin.

Athöfn vegna undirritunar kaupsamningsins fer fram í ágúst á þessu ári en þá munu allir aðilar, sem að verkefninu koma, hittast á Íslandi og fagna þessum stóra áfanga aukinnar björgunargetu á hafsvæðinu umhverfis Ísland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×