Þar fjallar Brynjar um störf lögreglumannanna við Ásmundarsal í desember, þar sem Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, var á meðal gesta á sýningu þar sem sóttvarnalög voru brotin.
Í greininni heldur Brynjar því fram að traust til lögreglu hafi rýrnað við málið, segir fordóma lögreglumannanna í garð Sjálfstæðismanna greinilega hafa haft áhrif á störf þeirra og veltir því upp hvort það sé orðið algengt vandamál innan lögreglunnar að lögreglumenn eigi við sönnunargögn.
Týpískur Brynjar
Fjölnir gefur lítið fyrir grein Brynjars: „Það er búið að útskýra þetta allt saman og nefndin [nefnd um eftirlit með lögreglu] hefur ekki haldið því fram að lögreglan hafi verið að reyna að leyna neinu.
Mér finnst þetta bara týpískur Brynjar. Hann er enn þá svona dálítill lögfræðingur, alltaf að reyna að búa til vafa. Það er það eina sem hann gerir – að henda inn vafa og svona tékka á viðbrögðunum.“
Hann segist ekki vilja fara í neitt stríð við Sjálfstæðisflokkinn en segir greinilegt að Brynjar sé með greininni að grafa undan lögreglumönnunum til að verja sinn ráðherra, sem var viðstaddur sýninguna þar sem sóttvarnalög voru brotin.
Á upptökum úr búkmyndavélum lögreglumannanna segir annar þeirra að hann kannist við tvo gesti samkvæmisins og kallar þá: „sjálfstæðis… svona… framapotarar“. Nefnd um eftirlit með lögreglu (NEL) taldi þessi ummæli ámælisverð.
Formaður NEL sagði við vísi í gær að þessi ummæli lýstu fordómum lögreglumannsins gagnvart þeim sem hann átti við í útkallinu. Brynjar er greinilega sammála því og gagnrýnir hann lögreglumennina harðlega fyrir störf sín umrætt kvöld.
Lögreglumenn fara ekki á staðinn að eigin frumkvæði
„Ég held að Brynjar Níelsson sé nú ekki það viðkvæmt blóm að hann teldi það fordóma ef einhver kallaði hann framapotara,“ segir Fjölnir við Vísir. „Hann talar þarna um einhverja fordóma í greininni en ég held að myndi ekki einu sinni lyfta augabrún þótt einhver myndi segja þetta við hann.“
Hann segist þá viss um að viðhorf lögreglumanna hafi ekki áhrif á störf þeirra eins og Brynjar fullyrðir og þvertekur fyrir að nokkur innan lögreglunnar eigi við sönnunargögn.
„Lögreglumenn eru ekkert að fara á staðinn að eigin frumkvæði. Þeir eru bara að sinna útkalli sem kemur frá fjarskiptamiðstöðinni um brot á sóttvarnareglum,“ segir Fjölnir. Málið sýni frekar að lögreglumenn telji alla jafna fyrir lögum og grípi í taumana sama hver eigi í hlut, þótt það sé ráðherra.
„Og ég skil ekkert í Brynjari að vera að gefa það í skyn að lögregla eigi við sönnunargögn. Og svo hugsar maður alltaf þegar Brynjar skrifar: Æ ég nenni nú ekki að fara að rífast við hann. En auðvitað þarf einhver að svara þessu bulli.“