Skoðun

Verndum uppljóstrara

Dóra Björt Guðjónsdóttir skrifar

Reykjavíkurborg er metnaðarfull þegar kemur að vernd uppljóstrara og gengur enn lengra en ný lög um vernd uppljóstrara kveða á um við breytingu verklags. Þetta er hluti af umfangsmikilli vegferð Reykjavíkurborgar sem snýr að því að styrkja eftirlitsumhverfið, auka gagnsæi og réttindavernd borgaranna. Þannig getum við betur tryggt almannahagsmuni um leið og að stuðla að auknu trausti á stjórnsýsluna. Réttaröryggi íbúa og gagnsæi í kringum réttindi og þjónustu hefur verið í brennidepli allt þetta kjörtímabil.

Nýjar reglur um vernd uppljóstrara voru samþykktar í borgarráði í vikunni. Verklagi hefur þar að auki verið breytt samhliða nýrri uppljóstrunargátt þar sem fyllsta gagnaöryggis er gætt, þar sem hægt er að eiga örugg samskipti við uppljóstranir og skila nafnlausum ábendingum.

Á nýju sviði fjármála og áhættustýringar er nú að finna sérstaka áhættustýringarskrifstofu sem felur í sér samhliða nýrri áhættustefnu stóraukna áherslu á áhættustýringu í allri starfsemi borgarinnar, þar með talið misferlisáhættu.

Með sameiningu eftirlitsaðila í eina óháða og öfluga eftirlitseiningu er verið að einfalda og auka gæði þjónustu við borgarbúa sem leita sér aðstoðar og nýta innviði borgarinnar betur. Um þessar mundir er verið að ljúka við misferlisáhættumat á allri starfsemi borgarinnar.

Eitt af lykilverkefnum borgarinnar með stóru átaki til næstu ára er stafræn umbreyting borgarinnar og nútímavæðing þjónustu sem eykur gagnsæi í kringum þjónustu, úthlutanir og forsendur ákvarðanatöku. Hluti af þessu er fjárfesting í upplýsingaaðgengi með Gagnsjá Reykjavíkur, nýrri styrkjagátt, opnun bókhalds, mælaborði borgarbúa og vinnu við að auka gagnsæi styrkveitinga, birta laun kjörinna fulltrúa sem og áherslu á þýðingar á önnur tungumál en íslensku.

Við Píratar leggjum alla áherslu á vönduð og góð vinnubrögð og þar með gagnsæi og eftirlit. Við höfum séð hvernig gagnsæi getur breytt hegðun fólks og ýtt undir vönduð vinnubrögð og að reglum sé fylgt og það sama á við um tilvist öflugra eftirlitsaðila og tækifæri einstaklinga til að blása í flautu og ljóstra upp um misbresti. Allt þetta getur skipt sköpum þegar kemur að nýtingu opinbers fjármagns, þegar kemur að trausti á hinu opinbera og þegar kemur að því að stoppa í göt og laga kerfin. Þetta snýst um að tryggja jafnræði og réttláta stjórnsýslu og að við fáum öll að sitja við sama borð.

Höfundur er formaður mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs Reykjavíkur og borgarfulltrúi Pírata.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×