Innlent

Loft­steinn mældist á jarð­skjálfta­mælum

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Talið er að um sé að ræða þrýstibylgju sem valdið var af loftsteini.
Talið er að um sé að ræða þrýstibylgju sem valdið var af loftsteini. Vísir/Vilhelm

Jarðskjálftamælingar Veðurstofu Íslands á Suðvesturlandi sýna mjög stuttan en afar greinilega púls milli klukkan 22:44 og 22:48 í gærkvöldi. Hann entist í innan við tvær sekúndur og líklegt er talið að loftsteinn hafi valdið honum.

„Sjálfvirka jarðskjálftamælakerfið nemur ekki þennan púls, þar sem hann ferðast miklu hægar en jarðskjálftabylgjur. Við ályktum sem svo að hér sé á ferðinni þrýstibylgja í andrúmslofti en margar tilkynningar um drunur bárust frá suðvesturlandi í gærkveldi. Skömmu áður sást blossi á himni og er líklegasta skýringin á þessu fyrirbæri sú að lofsteinn hafi brunnið hratt upp í andrúmslofti og við það hafi bæði orðið nokkur blossi og þrýstibylgja í andrúmslofti, m.ö.o. innhljóðsbylgja (e. infrasound),“ segir í Facebook-færslu frá Veðurstofunni.

Enginn eiginlegur jarðskjálfti mældist í kring um þennan tíma og því er talið sennilegast að loftsteinninn hafi brunnið upp til agna í andrúmsloftinu áður en hann náði jörðu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×