Fótbolti

Til rannsóknar lögreglu fyrir að lemja mann sem reyndi að stela Lamborghini-bifreið hans

Valur Páll Eiríksson skrifar
El Shaarawy hefur leikið 29 landsleiki fyrir Ítalíu en komst ekki í EM-hópinn.
El Shaarawy hefur leikið 29 landsleiki fyrir Ítalíu en komst ekki í EM-hópinn. vísir/getty

Ítalinn Stephan El Shaarawy, sem leikur með Roma ítölsku A-deildinni í fótbolta, er undir rannsókn hjá lögreglu fyrir að kýla mann sem reyndi að stela Lamborghini-bifreið hans.

Ítalskir miðlar greina frá málinu sem teygir sig aftur í febrúar á þessu ári þegar El Shaarawy var við tölvuleikjaspil ásamt félaga sínum Alessio Cerci, fyrrum leikmanns Roma, í setri þess síðarnefnda. Þrítugur maður frá Síle á þá að hafa brotið rúðu í Lamborghini bifreið El Shaarawy og ætlað að keyra á brott.

El Shaarawy varð var við það, stökk út og hljóp manninn uppi þegar hann flúði af vettvangi, tók hann niður og hélt honum þar til lögreglumenn komu á staðinn.

Þjófurinn var dæmdur í 16 mánaða fangelsi fyrir tilraun sína en hann hefur nú kvartað undan framgangi fótboltamannsins, og eru yfirvöld með málið til skoðunar.

El Shaarawy mun mæta í skýrslutöku vegna málsins í vikunni.

El Shaarawy er 28 ára gamall og sneri heim til Roma frá Shanghai Shenhua í Kína þar sem hann var á gríðarháum launum í tvö ár en spilaði aðeins 28 leiki. Hann sprakk út hjá AC Milan fyrir um tíu árum síðan og fór þaðan til Roma 2016 eftir misheppnaða lánsdvöl hjá Monaco í Frakklandi. Hann lék yfir 100 leiki fyrir Roma áður en hann hélt til Kína.

Roma lenti í 7. sæti ítölsku deildarinnar í fyrra undir stjórn Paulo Fonseca sem var látinn fara. Við af honum tók Portúgalinn José Mourinho.

Ítalski boltinn, Serie A, er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Serie A er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×