Óróarit Veðurstofu Íslands sýnir vel hvernig nánast slökknaði á gosinu snemma í morgun. Það var svo á áttunda tímanum í kvöld sem óróalínan fór að rísa á ný og fljótlega fékkst staðfesting á vefmyndavél Vísis á kraumandi kviku þegar fór að sjást í roða og síðan hraunslettur.

Spyrja má hvort eldgosið sé búið að finna sér nýjan reglubundinn takt, þegar lesið er úr óróaritinu. Álíka langt goshlé varð í fyrradag. Óróalínan féll þá bratt upp úr miðnætti þegar hratt dró úr gosinu. Það reif sig svo aftur upp síðdegis sama dag, einnig eftir um sextán stunda goshlé. Þá tók við um 36 stunda samfelld goshrina með miklum hraunelfum.
Haldi gosið áfram þessum takti má búast við sýnilegri virkni með hraunám næsta einn og hálfan sólarhringinn eða svo. Næsta goshlé gæti þá orðið á þriðjudagsmorgni.
Hér má sjá gosið í beinni á vefmyndavél Vísis:
Hér má sjá þegar gosið tók sig upp að nýju í fyrrakvöld. Atburðarásin er sýnd á tíföldum hraða. Fróðlegt verður að fylgjast með hvort upptakturinn verði með svipuðum hætti í kvöld og nótt: