Erlent

Norðmenn fresta tilslökunum af ótta við delta

Kjartan Kjartansson skrifar
Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs.
Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs. Vísir/EPA

Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, tilkynnti í dag að fyrirhuguðum tilslökunum á sóttvarnaaðgerðum verði frestað til mánaðamóta að minnsta kosti. Ástæðan er áhyggjur af því að svonefnt delta-afbrigði kórónuveirunnar gæti hrundið af stað nýrri bylgju faraldursins.

Delta-afbrigði veirunnar, sem greindist fyrst á Indlandi, er talið meira smitandi en óljóst er hvort það valdi alvarlegri veikindum en þau afbrigði sem voru algengust þegar kórónuveirufaraldurinn braust fyrst út.

Norsk heilbrigðisyfirvöld telja að delta-afbrigðið gæti orðið ráðandi þar í landi þegar í þessum mánuði.

„Það er hætta á að delta-afbrigðið valdi fjórðu bylgu smita á meðal fólks sem hefur ekki verið bólusett, fólks sem hefur aðeins fengið einn skammt eða í viðkvæmum hópum,“sagði Solberg þegar hún tilkynnti um ekki yrði slakað á aðgerðum strax.

Nærri því tveir af hverjum þremur fullorðum Norðmönnum hafa nú fengið fyrsta skammt af bóluefni gegn Covid-19 en 37% eru fullbólusett, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) hefur varað við því að delta-afbrigðið verði algengasta afbrigðið á heimsvísu. Áhyggjur hafa verið uppi um að þau bóluefni sem eru í umferð veitti minni vernd gegn delta-afbrigðinu en öðrum afbrigðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×