Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Þjóðhátíðarnefnd ÍBV. Í tilkynningunni segir að ákvörðun nefndarinnar svari fyrir sig sjálf og verði ekki rædd frekar af hálfu nefndarinnar.
Undanfarna daga hafa gengið sögur um meint kynferðisofbeldi og áreitni af hálfu Ingó á samfélagsmiðlinum TikTok og víðar. Sögurnar birtust á TikTok reikningi hópsins Öfga en þær eru allar nafnlausar. Þar segir að meintir þolendur skuldi engum að stíga fram undir nafni.
Ingó sagði í samtali við fréttastofu á föstudag að ekkert sé til í frásögnunum og sagðist upplifa umræðuna sem árás.
„Þetta er farið að hafa áhrif atvinnulega og aðallega er þetta leiðinlegt fyrir fólkið sem þekkir mann, að þurfa að standa í þessu. Þetta er orðið svo gróft núna,“ sagði Ingó og sagðist hafa mestar áhyggjur af sínum nánustu í tengslum við umræðuna.
Hann segist þegar vera farinn að leita réttar síns. „Í stuttu máli verður þessu öllu svarað eftir réttum leiðum. Svona á ekki að vera hægt að gera gagnvart einstaklingi og ég á eftir að skoða vel hvað ég geri. Ég mun leita réttar míns og er byrjaður á því.“
Eins og áður segir hófst umræðan á TikTok en hefur fært sig yfir á fleiri samfélagsmiðla. Mikil umræða hefur verið um málið á Twitter og hafa einhverjir rifjað upp kvartanir foreldra árið 2013 eftir að Ingó spilaði klúra útgáfu lagsins Hókí pókí á barnajólaballi.
Yfirlýsing Þjóðhátíðarnefndar ÍBV í heild sinni er hér að neðan:
Það skal upplýst að Ingólfur Þórarinsson – Ingó veðurguð – mun ekki annast brekkusöng á Þjóðhátíð né koma fram á hátíðinni í ár.
Þessi ákvörðun nefndarinnar svarar fyrir sig sjálf og verður ekki rædd frekar af hennar hálfu.