Innlent

Hörmu­legar af­leiðingar vöggu­stofanna: Brotið sjálfs­mat, höfnuna­rótti og ein­ræna

Óttar Kolbeinsson Proppé og Nadine Guðrún Yaghi skrifa
Frá vinstri: Fjölnir Geir Bragason, Árni H. Kristjánsson og Tómas V. Albertsson.
Frá vinstri: Fjölnir Geir Bragason, Árni H. Kristjánsson og Tómas V. Albertsson. vísir/arnar

Fimm manna hópur manna sem var vistaður á vöggu­stofum og á fleiri opin­berum upp­eldis­stofnunum á vegum Reykja­víkur­borgar eftir mið­bik síðustu aldar fundaði með borgar­stjóra í dag. Þeir lýsa skað­legum á­hrifum dvalar sinnar á stofnunum í við­tali við frétta­stofu eftir fundinn.

Fimmmenningarnir eru þeir Árni H. Kristjánsson, Fjölnir Geir Bragason, Hrafn Jökulsson, Viðar Eggertsson og Tómas V. Albertsson. 

Þeir eiga það allir sam­merkt að hafa orðið fyrir miklum fé­lags­legum skaða eftir dvölina, líkt og flestir sem voru vistaðir á stofnununum og hafa komið þá eftir að málið varð opin­bert. „Það er fjöldi manns búinn að tala við okkur og það eru svona þrjár setningar sem endur­taka sig alltaf; brotið sjálfs­mat, gríðar­legur höfnuna­rótti og ein­ræna,“ sagði Fjölnir eftir fundinn.

Árni tekur í sama streng: „Það blasir við að ef barn skortir ást og um­hyggju þá verður það fyrir skaða. Mis­miklum auð­vitað en svo sannar­lega fyrir skaða. Ég hef til dæmis alla ævi verið fé­lags­fælinn, ég vil helst vera einn með sjálfum mér en ég hef lært að vera innan um fólk,“ segir hann.

Líkamlegum þörfum sinnt en andlegar þarfir hunsaðar

Á vöggu­stofunum voru tugir barna vistuð á hverju ári. Það voru börn fá­tækra, ungra, ein­hleypra eða veikra mæðra sem gert var ráð fyrir að gætu ekki alið börnin sín hjálpar­laust.

Mennirnir lýsa því hvernig yfir­lýst upp­eldis­stefna borgarinnar var á þessum tíma: „Ein­göngu átti að sinna líkam­legum þörfum. Ef börn grétu þá átti að láta þau gráta nema það væri rök­studdur grunur um líkam­lega kvilla. Sem sagt líkam­legum þörfum barna var ein­göngu sinnt en alls ekki and­legum þörfum,“ segir Árni.

„Og náttúru­lega snertingin,“ segir Tómas og á þá við skort á henni: „Það er til mynd af mér tekinni bara í gegn um rúðu. Móðir mín fékk ekkert að snerta mig. Við erum bara sýnd í glugganum eins og hver annar sýningar­gripur.“

Hvað varð um börnin sem dóu?

Fjölnir segir ljóst að mörg börn hafi látið lífið á þessum opin­beru stofnunum og vill fá ná­kvæma út­tekt á því hve mörg þau voru. Á stöðunum voru bæði kapella og lík­hús.

„Börn dóu þarna… hve mörg börn dóu þarna? Hvað varð um þessi börn? Við þurfum bara að vita það,“ segir Fjölnir. „Þú getur í­myndað þér að ef skaðinn er það mikill að börn eru að deyja þarna og við, hinir þessir sterku sem lifðum af, erum stór­skaddaðir af þessu.“

Spurðir hvað hafi farið fram á fundinum með borgar­stjóra segjast þeir vilja viður­kenningu frá borginni um að upp­eldis­stefna þessara ára hafi verið skað­leg.

„Við viljum að það verðu farið í saumana á þessari starf­semi, hún verði rann­sökuð og gerð á henni út­tekt,“ segir Árni. „Við viljum fyrir hönd okkar og allra annarra barnanna sem voru í vistun þarna, mæðra okkar að þetta verði viður­kennt að þetta var skað­leg upp­eldis­stefna.“

Borgarstjóri sagði eftir fundinn að málið yrði opnað.vísir/nadine

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir í samtali við fréttastofu að borgin ætli að rannsaka starfsemi vöggustofanna.

„Ég held að miðað við það sem fram hefur komið þá muni borgin bregðast við því og skoða hvernig best verði að því staðið þannig að bæði rannsóknin og niðurstaða hennar njóti trausts,“ segir Dagur. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×