Sport

Djokovic í undanúrslit en Federer úr leik á Wimbledon

Valur Páll Eiríksson skrifar
Novak Djokovic getur unnið sinn 20. risatitil.
Novak Djokovic getur unnið sinn 20. risatitil. Getty/TPN

Serbinn Novak Djokovic komst í dag í undaúrslit einliðaleiks karla á Wimbledon-mótinu í tennis í Lundúnum. Svisslendingurinn Roger Federer er hins vegar úr leik eftir óvænt tap.

Roger Federer átti möguleika á að verða sigursælasti karlkyns tennismaður sögunnar með sigri á mótinu en það gekk ekki. Hann mætti Pólverjanum Hubert Hurkacz í dag en tapaði í þremur settum; 6-3, 7-6 og 6-0. Hurkacz mætir Ítalanum Matteo Berrettini í undanúrslitum mótsins.

Novak Djokovic er ríkjandi meistari, eftir að hafa unnið Wimbledon-mótið í fyrra, en hann er kominn í undanúrslit eftir sigur á Ungverjanum Marton Fucsovics, sömuleiðis í þremur settum; 6-3, 6-4 og 6-4. Hann mætir Kanadamanninum Denis Shapovalov í undanúrslitunum.

Djokovic hefur þegar unnið bæði Opna ástralska og Opna franska mótið á þessu ári. Sigri hann á Wimbledon-mótinu jafnar hann met áðurnefnds Federers yfir 20 sigra á risamótum. Spánverjinn Rafael Nadal deilir því meti með Federer en hann tekur ekki þátt á Wimbledon í ár.

Undanúrslitin fara fram á föstudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×