Innlent

Lögregla hljóp upp rúðubrjót í miðbænum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Vísir/Vilhelm

Lögregla hljóp í gærkvöldi upp einstakling sem braut rúðu á veitingastað í miðbænum. Tilkynnt var um rúðubrotið um kl. 21 en þegar lögregla mætti á staðinn var gerandinn farinn. Hann fannst hins vegar skammt frá og reyndi að flýja frá lögreglu, sem veitti eftirför á tveimur jafnfljótum. Hann var handtekinn en látinn laus um nóttina.

Lögregla sinnti einnig útkalli um kl. 1 vegna einstaklings sem lét öllum illum látum fyrir utan skemmtistað í miðborginni. Í ljós kom að lögregla hafði haft afskipti af viðkomandi fyrr um kvöldið og var hann handtekinn og látinn sofa af sér vímuna í fangaklefa.

Tilkynnt var um eld í íbúðarhúsi í miðbænum um kl. 23 og eld í bifreið í póstnúmerinu 110 upp úr miðnætti. Í því tilviki kom í ljós að ekki var um eld að ræða heldur reyk frá púströrinu.

Þá var tilkynnt um tvö umferðaróhöpp og að minnta kosti fjórir ökumenn stöðvaðir grunaðir um akstur undir áhrifum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×