Skoðun

Aphantasía

Svavar Kjarrval skrifar

Þegar þú lokar augunum og reynir að kalla fram mynd af tré á hól með á­vöxtum, hvað sérðu? En ef þú lest mynd­ræna lýsingu í skáld­sögu, sérðu fyrir þér mynd­rænt það sem er að gerast? Ef þú sérð ekkert eða lítið er lík­legt að þú sért með Aphanta­síu.

Aphantasía er á­stand sem lýsir sér þannig að við­komandi getur ekki átt frum­kvæði að því að kalla fram myndir í huganum eða þær eru í afar lágum gæðum miðað við raun­veru­leikann. Þótt ó­trú­legt sé virðist þetta ekki eiga við um drauma. Rófið er allt frá því að sjá alls ekkert og upp í „raun­heima­g­æði“, en mörk Aphanta­síu liggja ein­hvers staðar þar á milli.

Ef ein­hver myndi spila hug­leiðslu­band þar sem fólk væri beðið um að í­mynda sér að það væri á ströndinni, þá myndi væntan­lega meiri­hlutinn geta kallað fram myndir sem væru ná­lægt raun­veru­leikanum, á meðan ein­hver í­myndar sér út­línur, og svo væri þar ein­staka hlustandi sem skilur ekkert í æfingunni þar sem allt er tómt/svart. Sjálfur til­heyri ég síðast­nefnda hópnum.

Á­stæðan fyrir Aphanta­síu er enn hulin enda eru rann­sóknir á á­standinu ein­göngu ný­lega hafnar. Tíðnin er ekki komin á hreint en sjálfur hef ég séð snemm­bærar á­giskanir um að 5% mann­kyns séu með Aphanta­síu. En ef þetta hlut­fall er rétt, af hverju er um­ræðan ekki löngu hafin? Gróf­lega séð er á­stæðan sú að við tölum ekki mikið um formið á innri hugsunum okkar. Hver og einn telur að það sem við­komandi sér í í­myndunar­aflinu sé hið venju­lega og þarf því ekki að tala um það. Manneskja sem getur ein­göngu kallað fram út­línur í huganum gæti haldið að allt annað fólk í­mynda sér einnig hlutina með þeim hætti og manneskjan með „raun­heima­g­æði“ telur að manneskjan sé að upp­lifa það sama. Það var ekki fyrr en ein­stak­lingur einn fór í að­gerð og til­kynnti að hann hafði tapað mynd­ræna í­myndunar­aflinu sínu í kjöl­farið sem boltinn fór að rúlla í vitundar­vakningunni.

Allt þetta vekur upp á­fram­haldandi pælingar um hvernig hver og einn hugsar hlutina. Hvert er svarið við dæminu 100+1? Er þetta eitt­hvað sem kemur allt í upp í þínum huga án neinnar sér­stakrar úr­vinnslu,? Ertu að í­mynda þér að talan 1 hreyfi sig og ýti frá seinna núllinu? Eða gerist eitt­hvað annað þar á milli? Svo er spurning um hvort það sem veldur Aphanta­síu hafi einnig á­hrif á í­mynduð hljóð, lykt og aðra skynjun sem hugurinn reynir að fram­kalla með í­myndunar­aflinu, eða hvort það sé að­skilið Aphanta­síu. Þetta allt er gjarnan eitt­hvað sem væri á­huga­vert að ræða opin­ber­lega.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×