Þórunn hafði setið á þingi fyrir Framsóknarflokkinn í Norðausturkjördæmi frá árinu 2013. Í byrjun árs 2019 greindist hún með brjóstakrabbamein og gekk í gegnum stranga meðferð.
Hún tók sér þá hlé frá störfum sínum á þingi en sneri aftur á síðasta ári þegar meinið var horfið. Í lok þess árs fór það aftur að segja til sín.
Þórunn fæddist í Reykjavík þann 23. nóvember 1964. Hún skilur eftir sig eiginmann, Friðbjörn Hauk Guðmundsson, og þrjú börn; Kristjönu Louise, Guðmund og Heklu Karen.
Þórunn starfaði sem sauðfjárbóndi og grunnskólakennari áður en hún fór á þing. Hún var lengi virk í starfi Framsóknarflokksins en á þingferli hennar sinnti hún meðal annars starfi þingflokksformanns og sat sem fyrsti varaforseti Alþingis.
Greint er frá andlátinu í samráði við aðstandendur.