Félagið tilheyrir neysluvöru- og þjónustugeiranum og er 124. Félagið sem tekið er til viðskipta á mörkuðum Nasdaq Nordic í ár. Hlutafjárútboði tölvuleikjafyrirtækisins lauk þann 30. Júní síðastliðinn og tóku um það bil 2.700 fjárfestar þátt í útboðinu og sendu inn tilboð að andvirði 2,8 milljarða króna.
Fyrirtækið leggur áherslu á þróun tæknigrunns sem hraðar framleiðslu á fjölspilunarleikjum en stefnan er sett á framleiðslu nýs leiks á þriggja ára fresti. Fyrsti leikur Solid Clouds kom út í fyrra en það er leikurinn Starborne: Sovereign Space.

„Skráning Solid Clouds er rökrétt og mikilvægt skref fyrir félagið,“ er haft eftir Stefáni Gunnarssyni, forstjóra Solid Clouds í tilkynningu frá Kauphöllinni.
„Leikjaiðnaðurinn er sú grein sem er hvað mest vaxandi á heimsvísu á sviði tæknilegrar afþreyingar og við sjáum því gífurleg tækifæri fram undan á þessu sviði. Við byggjum á velgengni fyrsta leiksins okkar í Starborne seríunni og skráningin styður við metnaðarfull áform okkar um áframhaldandi vöxt og verðmætasköpun. Við bjóðum nýja hluthafa innilega velkomna og hlökkum til að taka þá með í vegferðina okkar,“ segir Stefán.