Skúli er til viðtals í nýjasta tölublaði Víkurfrétta þar sem greint er frá áformum hans um að opna sjálfstýrt hótel á Ásbrú í Reykjanesbæ í ágúst. Um er að ræða 67 herbergja hótel en herbergin voru á sínum tíma nýtt fyrir erlenda flugmenn WOW air. Flugfélagið varð sem kunnugt er gjaldþrota í mars 2019.
Auk þessa hefur hann unnið að því að breyta Base hotel í litlar íbúðir. Helmingurinn hefur þegar verið seldur og stefnir Skúli á að selja hinn hlutann í haust.
Skúli segir í samtali við Víkurfréttir að hann eigi von á mjög hagstæðu flugverði fyrir neytendur næsta sumar. Hann hrósar forsvarsmönnum Play og segir gríðarlegt afrek að hafa komið á fót nýju flugfélagi, sérstaklega að sækja sér átta milljarða króna í fjármögnun fyrir fyrsta flug.
„Þarna er mikið af góðu fólki sem á heiður skilið fyrir að koma félaginu á þennan stað eftir langa og stranga fæðingu. Byggt á fyrri reynslu hefði ég reyndar viljað sjá þau fara mun grimmar í lággjalda stefnuna til að standast aukna samkeppni úr öllum áttum en ég óska þeim alls hins besta og bíð spenntur eftir að sjá framhaldið,“ segir Skúli við Víkurfréttir.