Innlent

Ætla að blanda bólu­efni eins og enginn sé morgun­dagurinn

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Talsverð röð hefur myndast fyrir utan höllina, líkt og oft áður á bólusetningardögum.
Talsverð röð hefur myndast fyrir utan höllina, líkt og oft áður á bólusetningardögum. Vísir/Vésteinn

Um sjö þúsund skammtar af bóluefni Pfizer verða gefnir í endurbólusetningu, þar sem fólk fær seinni skammt af bóluefninu, í Laugardalshöll í dag. Þá er opið fyrir aðra í fyrri bólusetningu, og birgðastaðan góð þannig að auðvelt ætti að vera að anna eftirspurn.

Í samtali við fréttastofu segir Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjá Heilsugæslunni, að vel hafi gengið að bólusetja framan af degi. Sjálf var hún að blanda bóluefni í húsakynnum heilsugæslunnar þegar blaðamaður sló á þráðinn til hennar.

Í dag er svokallaður „opinn dagur“ í bólusetningu. Þannig býðst fólki sem ekki hefur fengið bólusetningu að koma í dag og fá fyrri skammt af bóluefni Pfizer, áður en heilsugæslan gerir hlé á bólusetningum og fer í frí. Sá hópur þarf þó að bíða í fimm vikur eftir seinni skammti, en ekki þrjár, eins og venjan hefur verið með umrætt bóluefni.

Bólusetningardeginum í dag lýkur um klukkan tvö. Ragnheiður segist litlar áhyggjur hafa af því að eftirspurn eftir fyrri skammti í dag verði meiri en framboðið, enda sé til mikið af bóluefni í landinu.

„Við ætlum bara að blanda eins og enginn sé morgundagurinn. Ef efnið hjá okkur klárast þá ætlum við að vera í sambandi við Distica, sem flytur bóluefnið inn, um að fá meira,“ segir Ragnheiður.

Nokkur röð hefur myndast fyrir utan Laugardalshöll, og samanstendur hún bæði af þeim sem eru að sækja sér seinni sprautuna sem og þeim sem eru óbólusettir en vilja bæta úr því.

#röðin.Vísir/Eiður



Fleiri fréttir

Sjá meira


×