Innlent

Sá smitaði er starfs­maður á Banka­stræti Club

Vésteinn Örn Pétursson og Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifa
Bankastræti Club hóf göngu sína fyrr í þessum mánuði.
Bankastræti Club hóf göngu sína fyrr í þessum mánuði.

Kórónuveirusmitið sem greindist í tengslum við skemmtistaðinn Bankastræti Club í fyrradag kom upp hjá starfsmanni staðarins, sem var á staðnum á föstudags- og laugardagskvöld.

Í samtali við fréttastofu staðfestir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir að starfsmaðurinn sem greindist hafi verið bólusettur við veirunni.

Í gær var greint frá því að annað tveggja smita sem greindist utan sóttkvíar tengdist skemmtistaðnum. Á Instagram-síðu Bankastræti Club voru gestir staðarins hvattir til þess að fara í sýnatöku þar sem smitið væri meðal annars „rakið inn um dyr“ staðarins, eins og það var orðað í hringrásafærslu á Instagram.

Í tilkynningu frá Almannavörnum í gær kom fram að hinn smitaði hefði farið á Bankastræti Club bæði á föstudag og laugardag. Þar var þess þó ekki getið að um starfsmann hafa verið að ræða. Voru gestir staðarins um liðna helgi hvattir af Almannavörnum til þess að fara í sýnatöku.

Í samskiptum við fréttastofu segir Birgitta Líf Björnsdóttir, eigandi Bankastræti Club, að niðurstöður úr sýnatöku annnarra starfsmanna staðarins hefðu verið neikvæðar.

„Þetta var starfsmaður sem var þó bólusettur. Sem sýnir hvað samfélagið þarf enn að vera á tánum. Við höfum fylgt öllum ráðleggingum frá sóttvarnar teyminu um næstu skref. Við erum með einstaklega gott starfsfólk svo við getum haldið okkar striki. Búið að er að skima alla í teyminu og setja þá sem voru í náinni snertingu við einstaklinginn í sóttkví. Það verður opið hjá okkur næstu helgi þar sem við munum fylgja öllum ráðleggingum sóttvarnalæknis.“

Fréttin hefur verið uppfærð með svörum Birgittu Lífar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×