Erlent

Í skurðaðgerð vegna fylgikvilla hnífstungu árið 2018

Samúel Karl Ólason skrifar
Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu.
Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu. AP/Eraldo Peres

Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu, þarf mögulega í neyðarskurðaðgerð vegna stíflu í þörmum. Hann var lagður inn á hersjúkrahús til aðhlynningar í fyrradag eftir að hafa fundið til í maganum og vera með hiksta í meira en tíu daga.

Í gærkvöldi var hann þó fluttur á gjörgæslu í sjúkrahúsi í Sao Paulo þar sem hann gengst rannsóknir og mögulega neyðarskurðaðgerð, samkvæmt frétt Reuters. Vitnað er í son Bolsonaro, sem heitir Flavio, en hann segir faðir sinn hafa farið í barkaþræðingu.

Forsetaembættið segir veikindi forsetans, sem er 66 ára gamall, vera fylgikvilla frá því hann var stunginn árið 2018.

Mynd af Bolsonaro var birt á Facebook í gær sem sýndi hann í sjúkrarúmi með prest sér við hlið. Þar eru veikindi hans einnig rakin til hnífaárásarinnar 2018. Við færsluna þakkar Bolsonaro fyrir þann stuðning sem hann hefur fengið og bænir fólks.

Undanfarna daga og vikur hefur verið mikil umræða í Brasilíu um heilsufar forsetans. Í nýlegu viðtali virtist Bolsonaro eiga erfitt með að tala og hefur hann verið að kvarta undan óþægindum.

Vinsældir forsetans hafa hrapað á undanförnum vikum og hefur Guardian eftir greinendum að fólk sé reitt yfir meðhöndlun hans á faraldri nýju kórónuveirunnar, sem veldur Covid-19. Í Brasilíu hafa minnst 537 þúsund manns dáið vegna Covid-19, svo vitað sé.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×