Tónlist

Færa ís­lenska laga­lista í bíla­leigu­bíla

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Lagalistarnir eru nú í boði í íslenskum bílaleigubílum,.
Lagalistarnir eru nú í boði í íslenskum bílaleigubílum,. Vísir

Útflutningsskrifstofa íslenskrar tónlistar (ÚTÓN) hefur ráðist í viðamikið verkefni í samstarfi við tónlistarmanninn Svavar Knút og íslenskar bílaleigur til að kynna erlenda ferðamenn hér á landi fyrir íslenskri tónlist.

Fram kemur í tilkynningu frá ÚTÓN að skrifstofan hafi prentað kort og plaköt fyrir íslenskar bílaleigur þar sem ferðamenn geta skannað QR kóða, svokallaðan, og komist beint í íslenska lagalista á Apple Music. Þar má meðal annars finna lagalistann Iceland Roadtrip, Icelandic Indie og Icelandic Metal.

Verkefnið er þegar komið í framkvæmd að sögn Sigtryggs Baldurssonar, framkvæmdastjóra ÚTÓN.

„Það er svo frábært að finna leiðir til að auka spilun á íslenskri tónlist á þann hátt að allir fái eitthvað út úr því, bæði bílaleigurnar, ferðalangarnir og ekki síst íslenskt tónlistarfólk.“

Ásgeir Elvar Garðarsson, framkvæmdastjóri Geysir Car Rental segir að verkefnið muni auka upplifun ferðamanna á ferðalögum sínum um landið.

„Þetta fólk langar langflest að heyra íslenska tónlist en veit oft ekki hvernig á að nálgast hana almennilega. Það er borðliggjandi að koma til móts við þennan stóra hóp,“ segir Svavar Knútur, sem átti hugmyndina að verkefninu.

„Mér finnst frábært að boðleiðirnar hjá okkur séu svona stuttar og ÚTÓN svona opið fyrir uppástungum og spjalli. Ég hugsaði bara að fyrst það eru engir geislaspilarar í öllum þessum bílaleigubílum og fólk er bara að nota Spotify og Apple Music til að spila tónlist á ferðalaginu, af hverju ekki að bjóða því upp á betra aðgengi að öllu okkar frábæra tónlistarfólki þar sem við getum náð til þeirra,“ segir Svavar Knútur.

Hann segist vonast til að ferðaþjónustan um land allt sjái tækifæri í því að búa til sína eigin spilunarlista með listafólki úr þeirra eigin sveitum til að bjóða ferðafólki upp á hágæða og viðeigandi undirspil við ferðalög þess um svæðin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.