Innlent

Katrín: Algjör samstaða um þessa niðurstöðu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Katrín á Egilsstöðum eftir fundinn í kvöld.
Katrín á Egilsstöðum eftir fundinn í kvöld.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að með nýjum hertum aðgerðum innnanland sé verið að reyna að tempra fjölgun smita hér á landi. Algjör samstaða hafi verið innan ríkisstjórnarinnar um þær aðgerðir sem farið verður í.

Ríkisstjórnin ræddi tillögur sóttvarnalæknir á löngum ríkisstjórnarfundi á Egilsstöðum í dag, þar sem ákveðið var að setja á 200 manna samkomubann, eins metra fjarlægðarreglu og skerða opnunartíma veitinga- og skemmtistaða.

„Hann gekk bara vel. Við fórum mjög ítarlega yfir tillögur sóttvarnarlæknis sem við fengum í gærkvöldi,“ sagði Katrín eftir fundinn en viðtal við hana má sjá í spilaranum hér að neðan.

Katrín segir ríkisstjórnina hafa ákveðið að fara eftir tillögum sóttvarnalæknis að mestu.

„Sem snúast um það að við erum að tempra fjölgun smita. Við viljum gefa þetta andrými líka til að meta hvort þessi fjölgun smita sé að skila sér í alvarlegum veikindum. Við þurfum að leggja mat á það,“ sagði Katrín

Það sem helst hafi staðið út af borðinu hafi verið það að sóttvarnalæknir lagði til tveggja metra reglu í sumum tilvikum og eins metra í öðrum.

„Það var niðurstaða okkar að það væri mun skýrara og einfaldara að hafa eins metra nálægðarreglu,“ sagði Katrín.

Fundurinn var sem fyrr segir í lengra lagi og aðspurð um hvort að lengd fundarins feli í sér að einhver meiningarmunur hafi verið á milli ríkisstjórnarflokkanna sagði Katrín að málin hafi einfaldlega verið rædd vel og ítarlega.

„Nei, þetta er auðvitað þannig að það hefur verið aðalsmerki þessarar ríkisstjórnar að við höfum geta rætt málin mjög opinskátt og við gerðum það svo sannarlega á þessum fundi. Auðvitað eru ólíkar spurningar og rætt ítarlega um málin. Það er algjör samstaða um þessar niðurstöðu.“


Tengdar fréttir

Bjarni: Þetta er varúðarráðstöfun

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, segir að þær sóttvanraraðgerðir sem taka gildi á miðnætti annað kvöld séu varúðarráðstafanir. Hann blæs á það að einhver óánægja sé innan raða Sjálfstæðismanna með hertar aðgerðir innanlands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×