Engin pása er á deildinni í Bandaríkjunum þrátt fyrir að fjölmargir leikmenn taki þátt á Ólympíuleikunum þessa dagana. Leikur næturinnar var mikilvægur báðum liðum í baráttu sinni um sæti í úrslitakeppninni.
Orlando var fyrir leikinn með 16 stig í jafnri baráttu við liðin í kringum sig en OL Reign var með 10 stig í næsta neðsta sæti og gat tekið stórt skref í átt að umspilssætis baráttunni með sigri.
Hin velska Jessice Fishlock kom Reign yfir strax á 10. mínútu eftir stoðsendingu frá Tziarra King. King skoraði svo síðara mark Reign snemma í síðari hálfleik. Mark hennar lagði franska stórstjarnan Eugénie Le Sommer upp en hún er ásamt franska landsliðsmarkverðinum Söruh Bouhaddi á mála hjá Reign, líkt og þýska goðsögnin Dzsenifer Marozsán.
Eftir góða byrjunar á mótinu hefur dregið allhressilega undan gengi Orlando Pride. Liðið vann fjóra og gerði þrjú jafntefli í fyrstu sjö leikjum sínum en hefur síðan aðeins fengið eitt stig í fimm leikjum.
Tvö efstu lið deildarinnar fara beint í undanúrslit um meistaratitilinn en sæti 3-6 fara í umspil. Deildin er gríðarjöfn þar sem tvö lið eru með 17 stig í 2.-3. sæti, þrjú lið með 16 stig í 4.-6. sæti, þar á meðal Pride í því sjötta, Washington Spirit kemur næst með 15 stig og svo OL Reign með 13 stig í 8. sæti eftir sigurinn í nótt.