Innlent

Fundu myndavélar í gistiaðstöðu fótboltastúlkna á Rey Cup

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Frá Rey Cup í fyrra.
Frá Rey Cup í fyrra. STÖÐ 2

Eftirlitsmyndavélar fundust um helgina í gistiaðstöðu fótbotlastúlkna á unglingsaldri á fótboltamótinu Rey Cup sem fram fer í Laugardal um helgina. 

Stúlkurnar, sem eru fimmtán og sextán ára, eru í fótboltaliði Selfoss og dvöldu í Laugardalshöll á meðan mótinu stendur. Þær urðu samkvæmt heimildum fréttastofu sjálfar varar við myndavélarnar, sem þær voru ekki meðvitaðar um og hafði ekki verið tilkynnt um. Þá gerðu þær þjálfara sínum og foreldrum viðvart.

Stúlkurnar skiptu meðal annars um föt inni í rýmunum þar sem myndavélarnar munu hafa verið.

Gunnar Rafn Borgþórsson, þjálfari liðsins, vildi ekki tjá sig um málið þegar eftir því var leitað en heimildir fréttastofu herma að málið hafi verið tilkynnt til lögreglu.

Foreldri stúlku í liðinu segir að þær hafi séð tvo stóra skjái með nokkrum myndavélum, sem hafi meðal annars sýnt beint frá gistiaðstöðu þeirra. Gunnar Rafn vildi heldur ekki staðfesta að málið væri komið á borð lögreglu en sagði að fundað yrði vegna málsins síðar í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×