Innlent

ReyCup segir að um athugunarleysi hafi verið að ræða

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Frá ReyCup í fyrra.
Frá ReyCup í fyrra. Stöð 2

ReyCup og Knattspyrnudeild Selfoss segjast í sameiginlegri yfirlýsingu harma þá stöðu sem upp hafi komið á mótinu, þegar eftirlitsmyndavélar fundust í gistiaðstöðu stúlkna í þriðja og fjórða flokki Selfoss um helgina. Ekki bendi til þess að um neins konar ásetning hafi verið að ræða heldur fyrst og fremst athugunarleysi sem beðist sé velvirðingar á.

Stúlkurnar fundu myndavélarnar sjálfar en þær voru inni í svefnsal þeirra, þar sem þær höfðu meðal annars fataskipti, en þær eru á aldrinum þrettán til sextán ára. Foreldrar sem fréttastofa hefur rætt við segjast æfir vegna málsins og hefur málið verið tilkynnt til lögreglu.

Forsvarsmenn ReyCup og Knattspyrnudeild Selfoss hafa ekki viljað tjá sig um málið þegar eftir því hefur verið leitað, og vísa alfarið á yfirlýsingu sína.

Yfirlýsinguna í heild má lesa hér fyrir neðan: 

Í gær, laugardaginn 25.07. kom í ljós að í Laugardalshöll í svefnsal stúlknaliða Selfoss sem þátt hafa tekið í ReyCup, var eftirlitsmyndavél sem ekki var slökkt á.

Stjórn mótsins var gert viðvart um leið og málið uppgötvaðist og þá var strax slökkt á vélinni.

Málið hefur verið tilkynnt til lögreglu sem hefur þegar hafið rannsókn þess.

Stjórn ReyCup harmar þessa stöðu sem upp er komin og lýsir fullum stuðningi við þær stúlkur sem þarna gistu.

Ekkert bendir til þess að um neinskonar ásetning sé um að ræða, heldur fyrst og fremst athugunarleysi sem er afskaplega miður og vill stjórn mótsins biðjast velvirðingar á því.

Stjórn ReyCup og fulltrúar Knattspyrnudeildar Selfoss hafa unnið að í góðu samstarfi að því að finna þessu máli réttan farveg í samstarfi við lögreglu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×