Fótbolti

Ari Freyr lagði upp í Íslendingaslag

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Ari Freyr lagði upp eina mark Norrköðing í 2-1 tapi í dag.
Ari Freyr lagði upp eina mark Norrköðing í 2-1 tapi í dag.

Tveimur leikjum var að ljúka í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu og það voru Íslendingar í eldlínunni í þeim báðum. Hammarby vann 2-1 sigur á heimavelli gegn Norrköping, og Häcken gerði 1-1 jafntefli gegn Elfsborg.

Jón Guðni Fjóluson og félagar hans í Hammarby tóku á móti Ara Frey Skúlasyni og félögum í Norrköping. Ísak Bergmann Jóhannesson var ekki í liði Norrköðing, en hann var að taka út leikbann.

Norrköping tók forystuna strax á annari mínútu með marki frá Samuel Adegbenro, en það var Ari Freyr Skúlason sem átti stoðsendinguna.

Gustav Ludwigson jafnaði metin fyrir heimamenn á 26. mínútu eftir stoðsendingu frá Astrit Selmani og staðan var því 1-1 í hálfleik.

Bjorn Paulsen skoraði sigurmark heimamanna á 83. mínútu og það voru því Jón Guðni og félagar sem fögnuðu sigri.

Með sigrinum fer Hammarby upp í fjórða sæti deildarinnar með 21 stig eftir 12 leiki, en Norrköping er í því sjötta með fjórum stigum minna.

Í hinum Íslendingaslagnum tóku Óskar Sverrisson og Valgeir Friðriksson í Häcken á móti Hákoni Valdimarssyni og félögum í Elfsborg. Óskar var í byrjunarliði Häcken og spilaði allan leikinn, á meðan að Valgeir og Hákon voru ónotaðir varamenn.

Per Frick kom gestunum yfir á tíundu mínútu áður en Alexander Jeremejeff jafnaði metin eftir rúmlega hálftíma leik.

Það reyndist vera seinasta mark leiksins og niðurstaðan því 1-1 jafntefli.

Elfsborg er því áfram í þriðja sæti deildarinnar með 23 stig, en Häcken situr í því sjöunda með 17 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×