Viðskipti innlent

Aftur­kalla kyrr­setningar­beiðnir vegna upp­byggingar á Kirkju­sandi

Eiður Þór Árnason skrifar
Á þessari grafísku mynd sést hvernig Kirkjusandur mun líta út þegar öllum framkvæmdum á vegum 105 Miðborgar á reitnum verður lokið. Húsin þrjú sem ÍAV sá um að byggja eru gula húsið fyrir miðri mynd, skrifstofubyggingin vinstra megin við það og íbúðarhúsið aftan við skrifstofubygginguna.
Á þessari grafísku mynd sést hvernig Kirkjusandur mun líta út þegar öllum framkvæmdum á vegum 105 Miðborgar á reitnum verður lokið. Húsin þrjú sem ÍAV sá um að byggja eru gula húsið fyrir miðri mynd, skrifstofubyggingin vinstra megin við það og íbúðarhúsið aftan við skrifstofubygginguna. TÖLVUMYND/ONNO EHF

Íslenskir aðalverktakar hf. (ÍAV) og 105 Miðborg slhf. hafa náð samkomulagi um að afturkalla kyrrsetningarbeiðnir gagnvart hvort öðru og að uppgjöri vegna ágreiningsmála þeirra verði lokið með hefðbundnum hætti fyrir dómstólum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögmönnum ÍAV og 105 Miðborgar en félögin hafa átt í deilum að undanförnu vegna framkvæmda á Kirkjusandi í Reykjavík. Hafa deilurnar meðal annars ratað inn á borð sýslumanns þar sem settar hafa verið fram kröfur um kyrrsetningu.

Greint var frá því í mars að allt væri á suðupunkti í deilunum um byggingarnar á Kirkjusandi. Þá hafði 105 Miðborg, sem er í stýringu Íslandssjóða, ráðið nýjan verktaka til að ljúka framkvæmdum á Kirkjusandsreitnum eftir að hafa rift samningi við ÍAV um byggingu þriggja húsa upp á um tíu milljarða króna.

ÍAV telur riftunina ekki standast lög og hefur stefnt 105 Miðborg og Íslandssjóðum.

Í maí kom svo fram að ÍAV færu fram á að 105 Miðborg og Íslandssjóðir, sem eru í eigu Íslandsbanka, greiði félaginu 3,8 milljarða í tengslum við deilurnar. Á sama tíma var greint frá því að 105 Miðborg hafi áður hafnað kröfum ÍAV og væri að undirbúa gagnstefnu.

Er meðal annars deilt um tafir á afhendingu húsanna og lagfæringar sem 105 Miðborg telur að ÍAV eigi að bæta og greiða fyrir. Í yfirlýsingu sem ÍAV sendi frá sér í byrjun mars kom fram að fyrirtækið hafi ekki fengið greitt vegna vinnu við verkið frá lokum nóvember í fyrra.


Tengdar fréttir

Allt á suðupunkti í deilum um byggingar á Kirkjusandi

105 Miðborg í stýringu Íslandssjóða hefur ráðið nýjan verktaka til að ljúka framkvæmdum á kirkjusandsreitnum eftir að hafa rift samningi við Íslenska aðalverktaka um byggingu þriggja húsa upp á um tíu milljarða króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×