Í skýrslu World Economic Forum „Future of Jobs Report” koma fram þrjú atriði sem talin eru skipta mestu máli þegar kemur að hæfismati fólks til framtíðar. Þessi þrjú atriði eru þeir eiginleikar sem talið er að muni einkenna eftirsóttasta starfsfólkið.
Hér er ekki verið að fjalla um menntun eða þekkingu, heldur eiginleika sem fólk býr sjálft yfir. Skýrslan var gefin út í lok árs í fyrra.
Þessi þrjú atriði eru:
1. Tilfinningagreind
Krafan um góða tilfinningagreind mun aukast á vinnumarkaði.
Það skýrist af því að nú þegar atvinnulífið verður sífellt meira og meira rafrænt, þurfum við að treysta á tilfinningagreind til þess að vega upp á móti því sem tæknin getur ekki leyst eða er að tapast vegna þess að við erum ekki lengur í sömu nærveru og áður.
Sem dæmi um hvernig tilfinningagreind getur hjálpað okkur í rafrænum heimi er næmnin okkar til að meta tóntegund og raddblæ fólks á fjarfundum. Sömuleiðis hjálpar tilfinningagreind okkur til að meta betur innihald tölvupósta eða texta og þá þannig að skilaboðin séu síður mistúlkuð.
2. Leiðtoga- og félagsfærni
Eitt af því sem einkennir fólk sem náð hefur langt í starfsframa er hæfnin til að tala fyrir breytingum, hugsjónum og markmiðum og fá annað fólk í lið með sér. Þarna spilar inn í leiðtoga- og félagsfærni sem tæknin ræður ekki við.
Í skýrslu Word Econmic Forum er mælt með því að vinnustaðir þjálfi allt starfsfólk í aukinni leiðtoga- og félagsfærni. Ekki aðeins stjórnendur eða það fólk sem líklegt er til að enda í leiðtogastarfi.
Ástæðan er sú að í hinum rafræna heimi munu vinnustaðir þurfa að treysta enn betur á færni teymisins en áður því stór hluti fólks mun ekki lengur starfa á sama viðverustað.
Með aukinni færni allra, óháð störfum eða staðsetningum, byggist upp liðsheild þar sem samstarfsfólk er líklegra til að gefa hvort öðru innblástur og hvatningu.
Þá er fjarvinnuumhverfið gera stjórnendunum erfiðari fyrir að fylgjast með á sama hátt og áður. Fyrir vikið er vinnustaðurinn háðari því en nokkru sinni að fólk sé fært um að vinna verkefni sjálfstætt, en þó sem hluti af liðsheild og fyrirtækjamenningu.
3. Hæfnin til að sýna frumkvæði
Loks er það frumkvæðnin því með fjarvinnu í rafrænum heimi, munu vinnustaðir þurfa að treysta enn betur en áður á þennan eiginleika hvers og eins.
Annars er hætta á stöðnun.
Mælt er með því að vinnustaðir hefji þessa þjálfun strax. Til dæmis með því að þjálfa starfsfólk til að spyrja gagnrýnna spurninga, þora að prófa sig áfram eða prófa nýjar leiðir, koma með nýjar og öðruvísi hugmyndir og svo framvegis.
Með því að þjálfa teymi strax í þessum eiginleika byggist upp geta og menning til að þjálfa nýliða innan frá. Því það að þora frumkvæðni verður teymum eðlislægt, sem aftur eykur líkurnar á að fólk hugsi oftar út fyrir boxið, uppgötvar nýjar lausnir eða stuðlar að nýsköpun.