Erlent

Vona að þriðji skammtur Pfizer hefti út­breiðsluna

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Bólusetningar með þriðja skammti hefjast á sunnudaginn í Ísrael.
Bólusetningar með þriðja skammti hefjast á sunnudaginn í Ísrael. getty/Amir Levy

Ísraels­menn munu byrja að gefa þriðja skammt af bólu­efni Pfizer til allra þeirra sem eru sex­tíu ára og eldri næsta sunnu­dag. Vonast er til að með þriðja skammtinum náist enn betri vörn gegn delta-af­brigði veirunnar og þannig verði hægt að stöðva út­breiðslu far­aldursins í landinu, sem hefur verið að ná sér aftur á strik.

Þeir sem fá þriðja skammtinn verða að vera orðnir sex­tíu ára gamlir og hafa fengið aðra sprautu bólu­efnisins fyrir að minnsta kosti fimm mánuðum síðan.

Naftali Bennett, for­sætis­ráð­herra landsins, til­kynnti þessi á­form í gær. Isa­ac Herzog, for­seti Ísrael, sem er akkúrat sex­tíu ára gamall, verður fyrstur til að fá þriðja skammtinn en hann verður sprautaður með honum í dag.

Isaac Herzog er forseti Ísraels. Hann fær fyrstur manna þriðja skammt af Pfizer-bóluefninu.

Veitir góða vörn gegn veikindum en minni gegn smiti

Það er enn ekki ljóst hvort elstu aldurs­hóparnir þurfi þennan þriðja skammt bólu­efnisins til að fá sem besta vörn gegn veirunni. Nægar rann­sóknir liggja ekki fyrir á því að svo stöddu að mati margra og er deilt um þetta at­riði í fræða­sam­fé­laginu, að því er segir í frétt The New York Times.

Það er þó vitað að bólu­efnið nær minnstri virkni meðal elstu aldurs­hópanna. Flestar rann­sóknir benda samt til að virkni Pfizer-bólu­efnisins sé nokkuð mikil og að vörn sem hljótist af því endist í góðan tíma. Því eiga menn erfitt með að átta sig á nýjustu gögnum frá Ísrael, sem sýna svo mikla út­breiðslu delta-af­brigðisins meðal bólu­settra.

Heil­brigðis­yfir­völd í Ísrael segja að ljóst sé að Pfizer-bólu­efnið veiti enn rúm­lega 90 prósent vörn gegn al­var­legum veikindum. Allt bendi þó til þess að efnið veiti sí­fellt minni vörn gegn smiti eftir því sem líður frá bólu­setningunni.


Tengdar fréttir

Segja virkni bóluefnis Pfizer minnka

Ísraelar segjast hafa mælt samdrátt í virkni bóluefnis Pfizer gegn Covid-19. Sérstaklega varðandi það að koma í veg fyrir smit og að smitaðir sýni einkenni. Bóluefnið komi þó áfram vel í veg fyrir alvarleg veikindi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×